Ætlum að hirða bikarinn
Þór/KA leikur einn sinn stærsta leik í sögu félagsins á laugardaginn kemur er liðið mætir Breiðabliki í úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 16:00. Vikudagur heyrði hljóðið í Örnu Sif Ásgrímsdóttur fyrirliða Þórs/KA fyrir leikinn mikilvæga.
-Hvernig er stemmningin í hópnum fyrir stóra daginn?
Hún er mjög góð og það eru allir frekar spenntir fyrir laugardeginum. Þetta leggst vel í okkur. Það eru ekki margar í hópnum sem hafa fengið að spila á Laugardalsvellinum og ekki á hverjum degi sem við spilum í bikarúrslitum. Þannig að þetta er stór dagur fyrir okkur allar í liðinu. Við fljúgum suður á laugardagsmorguninn, borðum saman fyrir leik og komum okkur í rétta gírinn. Svo reynum við bara að hafa gaman af þessu.
-Hvernig metur þú ykkar möguleika?
Ég tel þá vera mikla. Ég held að hæfileikar á knattspyrnuvellinum komi ekki til með að skipta höfuð máli í leiknum. Það sem mun ráða úrslitum er fyrst og fremst hvort liðið er tilbúið að leggja meira á sig til þess að vinna. Við ætlum að gefa allt sem við eigum í leikinn og vonandi dugar það til. Ég hef fulla trú á þessu liði og að við förum alla leið. Þetta verða slagsmál en við ætlum að hirða bikarinn.
-Stuðningur áhorfenda hlýtur að skipta máli í svona leik. Áttu von á því að Akureyringar flykkist suður?
Ég vona allavega að fólk fjölmenni til styðja við bakið á okkur. Ég veit að það verða rútuferðir í boði suður og vonandi verða þær rútur allar fullar af fólki, bæði Þórsurum og KA-mönnum, sem munu öskra hástöfum á vellinumog hvetja okkur áfram í leiknum.
-Kemur bikarinn með ykkur norður?
Já.