"Ætlum að enda þetta á jákvæðum nótum"

"Þessi leikur leggst bara ágætlega í okkur og við ætlum að reyna að klára mótið á jákvæðu nótunum eftir skellinn á Skaganum,“ segir Ingvar Már Gíslason aðstoðarþjálfari KA. Norðanmenn taka á móti Guðjóni Þórðarsyni og félögum í BÍ/Bolungarvík í dag í lokaumferð 1. deildar karla. Leikurinn á Akureyrarvelli hefst kl. 14:00.

Fyrir lokaumferðina er ljóst að ÍA og Selfoss fara upp um deild, en BÍ/Bolungarvík var lengi vel í baráttunni um annað sætið. Vestfirðingarnir eru í sjötta sæti deildarinnar með 31 stig, en KA– menn sitja í áttunda sætinu með 26 stig og eiga möguleika á að komast upp fyrir Þróttara með sigri á laugardaginn.

Ingvar segir mikilvægt að enda tímabilið með sigri. „Við eigum möguleika á að hoppa um eitt sæti og á meðan það er tækifæri á því að þá berjumst við um það. Við reynum að klára þetta með sæmd og ef við náum okkar leik á laugardaginn að þá getum við vel unnið.“

Nýjast