Ætlum að búa hér og byggja upp atvinnulífð

Íbúar í Hrísey eru um 100 færri en fyrir 20 árum og störf og atvinnutækifæri eru miklu færri nú en þá. Þá hefur kvóti Hríseyjar dregist saman um 90% á þessum tíma. Þetta kom fram í máli Þrastar Jóhannssonar útgerðarmanns á opnum fundi um stöðu atvinnumála í Hrísey og áhrif þeirra á búsetu í eyjunni, sem haldinn var í Brekku í vikunni.  

"Síðustu 10 árin, eða eftir að KEA hætti endanlega starfsemi, hefur ýmislegt verið reynt en því miður hafa þær tilraunir ekki skilað því sem vænst var. Farið var af stað með fjarvinnslu eins og á fleiri stöðum. Heimamenn lögðu töluverða fjármuni í fyrirtækið, vonir stóðu til að verkefnin kæmu frá ríkinu, tæknin var til staðar en engin komu verkefnin. Ráðamenn sem höfðu uppi hástemmdar yfirlýsingar um að þarna gæti hið opinbera komið til leiðar atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, til að vega upp á móti aflasamdrætti, lippuðust niður fyrir embættismannakerfinu þegar á reyndi og ekki varð neitt úr neinu," sagði Þröstur. 

Hann sagði að fiskvinnsla og útgerð síðustu 10 árin hafi byggst á smábátaútgerð og því sem henni tengist. Sú starfsemi sé mjög háð tíðarfari yfir veturinn og geti komið dauðir tímar ef veður eru válynd eins og hefur verið frá áramótum. "Síðustu ár hefur Hrísey fengið úthlutað byggðakvóta sem skipt hefur sköpum. Fyrir þetta fiskveiðiár nemur úthlutunin 102 tonnum, það er kannski ekki mikið miðað við þann kvóta sem var hér áður. Það kann einhverjum að finnast það öfugsnúið að ef fiskvinnslu yrði  hætt hér í eynni myndi úthlutun byggðakvótans fara upp í 300 tonn en ef fiskvinnsla yrði aukin þá myndi úthlutunin minnka. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið styðst við afar sérkennilegt og flókið punktakerfi sem ég hef mikið reynt að grauta mig í gegnum varðandi úthlutunina. Eftir því sem samdrátturinn er meiri, fólksfækkun, samdráttur í vinnslu og samdráttur í kvóta, því fleiri eru punktarnir og því meiri byggðakvóti," sagði Þröstur.

Hann sagði að þróunin í Hrísey síðustu ár sé nær samhljóma þróun annarra byggðarlaga víða um land. "Kvótinn fer burtu, stærsti atvinnurekandinn hættir og þá er ákveðnum grunni kippt undan. En mér er það einnig ljóst að það hefur háð mörgu byggðalaginu að fjölbreyttari atvinnutækifæri vantar en það þarf samt að vera sterkur grunnur í atvinnulífinu og þann grunn höfum við ekki haft síðustu ár."

Erum háð sjávarútvegi

Kristinn Árnason formaður hverfisráðs sagði að atvinnulíf í Hrísey hafi átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og að augljósasta ástæðan sé minnkandi aflaheimildir. "Við getum að sjálfsögðu sótt vinnu í landi ef okkur býðst það en ef við ætlum öll að vinna í landi, þá ég held að það sé lítið varið í samfélag sem gefur sig út fyrir að vera svefnbær. Það á í raun við um nokkur smærri samfélög hringinn í kringum landið. Fyrir það fyrsta er það lífsspursmál fyrir samfélag eins og þetta að grunnskólinn verði starfræktur hér áfram. Engin ástæða er til að ætla að svo verði ekki og aldrei hefur komið til tals að hrófla við þeirri starfsemi í skjóli hagræðingar."

Kristinn sagði að árið 1991 hafi íbúar í Hrísey verið 276 en árið 2000 voru íbúarnir 188, sem samsvaraði því að 88.000 manns hefðu flutt af landi brott. "Í dag erum við 180 og hefur það verið íbúafjöldinn að jafnaði síðustu ár. Lægst hefur íbúatalan farið niður í 167 en það var á góðærisárinu 2005 þegar mikil uppbygging var að ná hámarki víðs vegar um landið."

Kristinn sagði að heimamenn ætli sér að búa áfram í Hrísey og byggja upp atvinnulífið. "Auðvitað ætlum við gera það og byrjum á því að efla grunnstoðir atvinnulífs, sem er háð sjávarútvegi að mestum eða öllum hluta. Mikill áhugi er fyrir því að byggja Norðurskel upp með hraði og þá hafa Hvammarar gert samning við Byggðastofnun um leigu á frystihúsinu og eru bundnar vonir við að það komi til með að fjölga störfum í eyjunni. Vaxtarbroddur er í ferðaþjónustunni, sem er þó árstíðarbundin í flestum tilfellum. Á síðasta ári flutti ferjan Sævar um 62.000 farþega og er meirihlutinn þeirra ferðamanna sem sækja Hrísey heim innlendir."

Kristinn sagði að mikill áhugi væri fyrir því að eiga eða leigja hús tímabundið í eynni og að í sumum tilfellum hafi færri komist að en vildu. Hann sagði að bærinn ætti hiklaust að bjóða ódýrari sumarhúsalóðir í Hrísey en gengur og gerist annars staðar.

Vinnsla á hvönn hefur verið starfrækt í Hrísey síðustu misseri í samstarfi við Sagamedica og hefur Kristinn þá trú að sú starfsemi eigi eftir að eflast enn frekar og að hvönnin verði unnin frekar á staðnum og jafnvel fullunnin. En þó í samstarfi við sterka og góða aðila. "Það sem gæti þó hjálpað okkur mest væri að fá auknar aflaheimildir og styrkja þannig grunnstoðir atvinnulífsins. Í framhaldi af því styrktist byggðarlagið og ýmis önnur tækifæri gætu skapast og aukið fjölbreytni í atvinnumálum."

Alls 23 á atvinnuleysisskrá

Í máli Soffíu Gísladóttur forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra kom fram að nú séu 23 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í Hrísey, 12 konur og 11 karlar. Atvinnuleysi í eynni er því um 20-21%. Soffía sagði að þetta væri mjög há tala og ein sú hæsta á starfssvæði stofnunarinnar á Norðurlandi eystra. Sex einstaklingar sem hafa verið á skrá í meira en tvö ár en aðeins einn einstaklingur á það á hættu að detta út af skrá eftir 5-6 mánuði. Allir aðrir eru með fjögurra ára bótarétt.

Af þessum 23 einstaklingum í atvinnuleit í Hrísey eru 6 erlendir ríkisborgarar og hafa þeir allir verið lengur en eitt ár á atvinnuleysisskrá og þrír þeirra hafa verið lengur en tvö ár. Soffía sagði að á sumrin hafi einstaklingar farið inn í átaksverkefni en það er eitt af þeim úrræðum sem stofnunin getur boðið upp á. "Við getum farið í samvinnu við bæði fyrirtæki og sveitarfélög í að búa til verkefni, með því að nýta þá einstaklinga sem eru í atvinnuleit. Hafa þarf þó í huga að þeir sem eru í atvinnuleit eiga ákveðin bótarétt og það þarf að passa upp á hann," sagði Soffía.

Nýjast