Ætla að sýna mig og sanna
„Þetta leggst rosalega vel í mig og það er gaman að fá svona tækifæri til að sýna sig og sanna. Það er svo vonandi að maður nýti það,” segir knattspyrnumaðurinn Atli Sigurjónsson leikmaður Þórs. Hollenska úrvalsdeildarliðið N.E.C. Nijmegen hefur boðið Atla að koma til æfinga hjá liðinu og mun Atli fara utan seinni partinn í ágúst og æfa með liðinu í viku.
Hollenska liðið hefur haft Atla undir smásjánni í töluverðan tíma og hafa menn á vegum félagsins m.a. komið hingað til lands í sumar og fylgst með tveimur leikjum Þórs, en Atli hefur staðið sig vel með Þór í Pepsi-deildinni í sumar. Atli æfði með þessu sama félagi fyrir nokkrum árum og þekkir því eitthvað til félagsins.
„Ég var þarna þegar ég var á yngri ári í þriðja flokki og það verður gaman að koma þarna aftur,” segir Atli, sem vonast eftir að heilla forráðamenn félagsins á meðan dvölinni stendur. „Það er ekki spurning að ég ætla að standa mig það vel að þeir vilja ekki sleppa mér,” segir hann. Óvíst er hvort Atli muni missa af leikjum með Þór hér heima á meðan dvölinni stendur.