„Ætla að koma sterkari til baka“

María Guðmundsdóttir er þessa dagana á hækjum en gæti snúið aftur á skíðin í desember. Mynd: Guðmund…
María Guðmundsdóttir er þessa dagana á hækjum en gæti snúið aftur á skíðin í desember. Mynd: Guðmundur Jakobsson.

„Þetta er alveg ömurlegt en það þýðir ekkert að væla yfir þessu,“ segir María Guðmundsdóttir, 18 ára skíðakona frá Akureyri, sem slasaðist illa á hné á Skíðamóti Íslands á dögunum sem fram fór í Hlíðarfjalli á Akureyri. María þarf að gangast undir aðgerð í byrjun næsta mánaðar. „Ef aðgerðin gengur vel að þá má ég fara aftur á skíðin sex mánuðum eftir aðgerðina og get verið komin á fullt aftur eftir níu mánuði ef allt gengur að óskum,“ segir María, sem er búsett í Noregi.

Maríu hefur gengið einstaklega vel í vetur og verið ofarlega á flestum alþjóðlegum skíðamótum sem hún hefur tekið þátt í og komist reglulega á verðlaunapall. Hún hafði unnið tvöfalt í svigi á Skíðamóti Íslands þegar ósköpin dundu yfir. „Þetta er afskaplega svekkjandi þar sem ég er búinn að skíða vel í vetur og verið ánægð með mína frammistöðu. Þetta kom því á afar leiðinlegum tímapunkti.“

María var að skíða fyrri ferð í stórsvigi þegar slysið átti sér stað. „Það var mikil ísing og ég fór að sjá minna og minna út úr skíðagleraugunum og endaði með að sjá ekki neitt. Þar af leiðandi skíðaði ég útaf brautinni með þessum afleiðingum.“ María er þó hvergi bangin og hyggst snúa enn sterkari til baka.

„Þetta er hlutur sem getur alltaf gerst, í hvaða aðstæðum sem er og maður verður bara að kyngja því. Ég er staðráðin í því að komast á skíðin sem allra fyrst og vera ennþá öflugri,“ sagði María.

Nýjast