Æfingar hafnar á leikritinu, Lápur, Skrápur og jólaskapið

Starfsfólk Leikfélags Akureyrar er komið í jólaskap, enda eru æfingar hafnar á leikritinu, Lápur, Skrápur og jólaskapið, eftir Snæbjörn Ragnarsson, sem frumsýnt verður í Rýminu þann 22. nóvember nk. LA stóð nýverið fyrir áheyrnarprufum, þar sem leitað var að stelpu á aldrinum 9-12 ára í hlutverk Sunnu í leikritinu.  

Hátt í 100 efnilegar leik- og söngkonur mættu í áheyrnarprufu en niðurstaðan varð sú, að tvær ungar stúlkur, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir 9 ára og Rán Ringsted 10 ára, munu skipta hlutverkinu með sér. Vikudagur heimsótti leikarana og leikstjórann Guðjón Þorstein Pálmason nýlega og spjallaði m.a. við þær Bjarklindi og Rán. Þær stöllur voru að vonum ánægðar með að hafa verið valdar í hlutverkið, enda áhugamál þeirra beggja, dans, söngur á leiklist. Stelpurnar eru þó ekki að stíga sín fyrstu spor á sviðinu, því báðar léku þær í Óvitum, auk þess sem þær hafa leikið í skólanum. "Við skiptum hlutverkinu með okkur, þótt við séum ekkert líkar, eða í eins fötum," sagði Rán. Stelpurnar taka sitt hlutverk alvarlega og voru báðar búnar að læra sinn texta og reyndar annarra í verkinu, þegar æfingar hófust fyrir um tveimur vikum. "Við leiðréttum strákana stundum á æfingum en þeir þurfa helst að nota leikarahandrit á æfingum," sagði Bjarklind hróðug.

Rán er í Brekkuskóla en Bjarklind í Giljaskóla og aðspurðar hvort það hafi ekki vakið athygli í skólanum að þær hafi orðið fyrir valinu í hlutverk Sunnu, sögðu þær báðar svo vera. "Við verðum frægar - alla vega í skólanum," sögðu þær stöllur. "Bekkurinn minn kemur á sýninguna 29. nóvember og ég er þegar orðin kvíðin," sagði Rán. "Bróðir minn ætlar að koma á margar sýningar," sagði Bjarklind. Ekki eru stelpurnar alveg vissar um að stefna að leiklistinni í framtíðinni en alveg eins. "Ég ætla að verða leikkona eða hárgreiðslukona þegar ég verð stór," sagði Rán. "Þú getur orðið bæði og þá greitt hinum leikurunum fyrir sýningar," bætti Bjarklind við.

Leitað að jólaskapinu

Guðjón leikstjóri sagði að æfingar hefðu gengið vel, enda væru stelpurnar virkilega duglegar. "Þær læra hvor annarri enda er þetta sameiginlegt verkefni þeirra en ekki keppni." Það er heldur ekki á hverjum degi sem svona ungar leikkonur fá að spreyta sig á jafn stóru og skemmtilegu hlutverki.  Guðjón er leikstýra í fyrsta skipti hjá einu af "stóru" leikhúsunum en hann hefur áður leikstýrt hjá áhugaleikhópum og í framhaldsskólum. Þá lék hann í Maríubjöllunni og Litlu hryllingsbúðinni hjá LA leikárið 2006-2007. Guðjón sagði að það hefði komið sér skemmtilega á óvart í áheyrnarprufunum hversu mikið væri til af hæfileikaríkum krökkum hérna fyrir norðan.

Með hlutverk Láps og Skráps fara Einar Örn Einarsson og Viktor Már Bjarnason. Aukahlutverk eru í höndum Önnu Svövu Knútsdóttir. Lápur og Skrápur eru einu tröllabörninn í Grýluhelli sem hafa ekki enn komist í jólaskap. Grýla, mamma þeirra, rekur þá því af stað úr hellinum og bannar þeim að koma aftur fyrr en þeir eru búnir að finna jólaskapið. Lápur og Skrápur leita um allt og leitin ber þá inn í svefnherbergi Sunnu litlu. Hún ákveður að hjálpa þeim bræðrum og saman lenda þau í alls konar ævintýrum.
Um ljósahönnun sér Lárus H. Sveinsson og er þetta hans fyrsta hönnunarverkefni. Hann hefur starfað sem ljósamaður og við ýmsa tæknivinnu hjá Leikfélagi Akureyrar um árabil.

Nýjast