Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður til sannkallaðrar Aðventuveislu sem einkennist af jólagleði, birtu og yl í Menningarhúsinu Hofi, í dag laugardag og á morgun sunnudag. Búast má við glæsilegum tónleikum en stórsöngvararnir Kristján Jóhannsson og Sigríður Thorlacius stíga á stokk ásamt SN og öflugum stúlknakór. Slík samsetning býður upp á stemmningu sem leiðir áheyrendur inn í jólaundirbúninginn á ljúfum og fallegum nótum.
Fyrri tónleikarnir eru kl. 18 í dag laugardag, 26. nóvember og seinni tónleikarnir kl. 16 á morgun sunnudag. Ýmiskonar góðgæti verður í boði, m.a. lögin Jólakötturinn, Ave Maria, Christmas Festival, Geso Bambino, Betlehemsstjarnan og Ó, helga nótt.. Einnig verða þrír þættir úr Hnotubrjótnum fluttir svo fátt eitt sé nefnt. Sigríður Thorlacius er landsþekkt fyrir seiðandi söng sinn og fallega sviðsframkomu m.a. með hljómsveitinni Hjaltalín.
Kristján Jóhannsson sagðist vera spenntur að koma norður og taka þátt í þessari aðventuveislu. Það verður alveg yndislegt að koma og syngja á Akureyri, sagði Kristján. Sigríður er líka alveg einstaklega skemmtileg, þannig að ég held að þetta verði áhugaverður kokteill hjá okkur. Við ætlum aðgeraokkar til að þetta verði góðir tónleikar og gleði í hjörtum, um það snýst þetta.
Kristján sagði það virkilega spennandi að syngja í Hofi, enda hafi tekist einstaklega vel til með húsið. Hann sagði að efnisskráin væri skemmtileg og fyrir alla fjölskylduna. Kristján syngur m.a. tvær aríur sem hann hefur aldrei áður sungið á Akureyri. Ég er í hörkuformi og banastuði, þannig að þetta verður bara skemmtilegt.