Aðventuævintýri á Akureyri hefst á laugardaginn en þá verða ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi, tréð er gjöf fráRandersvinabæ Akureyrar í Danmörku. Dagskráin hefst klukkan 14.50 og lýkur rétt fyrir fjögur. Fjölbreytt jólatónlist frá Vilhjálmi Inga Sigurssyni, Helga Svavarssyni, Kaldo Kiis og Barnakórum Akureyrarkirkju undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, afhending jólatrésins er í höndum Helga Jóhannessonar konsúls Dana á Norðurlandi og mun Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar flytja ávarp.
Það er svo Anna Marý Jónsdóttir sem sér um tendra ljósin. Þeir Hurðaskellir, Kjötkrókur og Kertasníkir láta duglega til sín taka og syngja og sprella fyrir börnin. Við sama tækifæri verður kveikt aftur á hjartanu í Vaðlaheiðinni og jólakötturinn mun taka sér stöðu á Ráðhústorgi í námunda við jólatréð. Að lokinni dagskrá á torginu er upplagt að leggja leið sína í Menningarhúsið Hof, þar sem BigBand Tónlistarskólans á Akureyri leikur jólalög undir stjórn Albertos Carmona. Aðventuvævintýri á Akureyri heldur svo áfram fram að jólum og rekur hver viðburðinn annan, ýmiskonar aðventu- og útgáfutónleikar, bókaupplestur, jólamarkaðir, miðbæjarstemmning, útijólaball og fleira sem fylgir því að njóta töfra aðventunnar.
Hægt er að fylgjast með dagskrá Aðventuævintýris á www.visitakureyri.is