Aðsóknarsprengja í HA
Nýtt met hefur verið sett í fjölda rafrænna umsókna við Háskólann á Akureyri í ár, en umsóknarfrestur um skólavist rann út nú um helgina. Alls hafa 1030 umsóknir borist sem er um 15% fleiri en sóttu um skólavist í fyrra. Að sögn Dagmarar Ýrar Stefánsdóttur er þessi mikla sprenging sérstaklega ánægjuleg, ekki síst í ljósi þess að í fyrra var mikil sókn í kennsluréttindanámið sem þá var boðið í síðasta sinn með eftir eldra kerfi og mikill fjöldi notfærði sér að ljúka því námi áður en lenging námsins tók gildi.
Dagmar bendir á að þetta séu hráar umsóknir og muni ekki endilega skila sér allar inn í skólann í haust því enn eigi eftir að ganga úr skugga um hvort þær séu gildar og innritunargjald hefur ekki verið greitt.
Það virðist vera aukning á innskráningu í flestar tegundir náms, en áberandi er mikill fjöldi umsókna í hjúkrunarnámið þar sem um 200 manns sóttu um. Í því námi er kvóti eftir fyrstu önn þannig að einungis 50 nemar komast áfram í náminu. Dagmar telur að í þessari miklu aðsóknarsprenginu í hjúkrun sé orðspor skólans og heilbrigðissviðsins að skila sér.
Þá er greinilegt að viðskipafræðin er að taka aftur við sér en örlítið bakslag kom í þá grein eftir hrunið. Nú hafa hins vegar um 160 umsóknir eru í það nám. Þá hafa félagsvísindi verið vinsæl og segir Dagmar að fjarnámið hafi mælst vel fyrir. Í sálfræði hafa um 150 nemendur skráð sig og í fjölmiðlafræði og nútímafræði hafa milli 40 og 50 nemar skráð sig í hvora grein um sig.