Aðsóknarmet slegið á sýningunni MATUR-INN 2011
Áætlað er að 13-15 þúsund manns hafi sótt sýninguna MATUR-INN sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri um helgina. Sýningin var haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í samstarfi við Matarkistuna Skagafjörð og Þingeyska matarbúrið, fyrirtæki og styrktaraðila. Þátttakendur í sýningunni voru á fjórða tug en sýningin var nú haldin í fimmta sinn og var sú stærsta hingað til hvað sýningarrými og aðsókn varðar.
MATUR-INN hefur sannað sig sem ein öflugasta matvælasýning landsins. Aðalmarkmiðið með henni er að kynna norðlenskan mat og matarmenningu, allt frá smáum framleiðendum upp í þá stærstu, veitingastarfsemi og annað sem þessu tengist. Sýningin er jafnframt sölusýning og það fór ekki á milli mála að fólk kunni vel að meta hversu góð kaup var hægt að gera á sýningunni. Við heyrum ekki annað en allir séu hæstánægðir með helgina - jafnt sýnendur sem gestir," segir Ingvar Már Gíslason í sýningarstjórn.
Jafnframt hefðbundu sýningarhaldi þar sem fyrirtæki kynntu vörur sínar og þjónustu annaðist Klúbbur matreiðslumeistara á Norðurlandi skemmtilegt keppnishald á sýningarsvæðinu. Einar Geirsson á veitingahúsinu Rub 23 á Akureyri eldaði verðlaunarétt úr makríl, af þjóðþekktum einstaklingum þótti Hölskuldur Þórhallsson, alþingismaður, standa sig best í matreiðslu á laxi, Ingólfur Gíslason, bakari, sigraði í eftirréttagerð fyrir hönd Bláu könnunnar á Akureyri og loks bar veitingahúsið Bryggjan á Akureyri sigur úr býtum í flatbökukeppni veitingastaða.
Við lok sýningar voru að vanda veitt frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr Eyjafirði. Þau hlaut að þessu sinni MS Akureyri fyrir vöruþróun, markaðsstarf og nýsköpun í frmleiðslu á hollustuvörum úr osta- og skyrmysu. Fastur liður í sýningarhaldinu er uppboð á veglegum matarkörfum sem sýnendur gefa í. Ágóði af uppboðinu í ár var 173.500 kr. og rennur hann til stuðnings Hetjunum - aðstandendafélagi langveikra barna á Norðurlandi.
Sýningin MATUR-INN er haldin á tveggja ára fresti og er stefnt að næstu sýningu haustið 2013, segir í fréttatilkynningu.