Aðsóknarmet slegið á liðnu sumri

Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar segir sumarið hafa verið algjörlega frábær…
Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar segir sumarið hafa verið algjörlega frábært á Jaðarsvelli. Mynd MÞÞ

Aðsóknarmet sem sett var á Jaðarsvelli í fyrrasumar var slegið á liðnu sumri. Aldrei hafa fleiri kylfingar leikið á vellinum, en á tímabilinu frá 1. maí og út ágúst mánuð var 12% aukning á spiluðum hringjum miðað við árið 2020.  Alls voru spilaðir 24.886 hringir á vellinum á tímabilinu.

„Sumarið var algjörlega frábært á Jaðri,“ segir Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyri. Þátttaka í mótum var með mesta móti og yfir 200 manns skráðir til leiks í þremur mótum sumarsins. Íslandsmótið fór fram á Jaðarsvelli og vakti að venju athygli en m.a. var sýnt RÚV beint frá mótinu.

Völlurinn oft þétt setinn

„Við áttum alls ekki von á að aðsóknarmetið sem sett var í fyrrasumar yrði slegið strax sumarið á eftir. Það er gaman að upplifa vinsældir Jaðarsvallar og fylgjast með auknum áhuga almennings á íþróttinni. Völlurinn var oft mjög þétt setinn og líflegt á svæðinu,“ segir Steindór.  Ferðafólk er duglegt að nýta sér völlinn í sumarleyfum sínum og margir lögðu leið sína í höfuðstað Norðurlands liðið sumar. Júlí var enda besti mánuðurinn á vellinum, með 20% meiri aðsókn í þeim mánuði miðað við sama mánuð í fyrra.

Nánast fullbókað

Hann segir mikla grósku í gangi í golfíþróttinni, fjölgað hafi í klúbbnum og barna- og unglingastarf blómstri sem aldrei fyrr. Kylfingar frá GA hafi náð góðum árangri í sumar og það hafi alltaf jákvæð áhrif.  Þá nefnir hann að golfmótin hafi slegið í gegn, á þremur mótum sumarsins fór aðsókn yfir 200 manns. Stærsta mótið var miðnætursólarmótinu Arctic Open með  252 keppendur. Bókanir fyrir næsta ár eru þegar farnar að berast og segir Steindór að Arctic Open 2022 sé nánast orðið fullbókað.


Athugasemdir

Nýjast