Aðsóknarmet í Sundlaug Akureyrar og Hlíðarfjall

Íslendingar ferðast nú mun meira innanlands en áður hefur verið og virðist sem straumurinn liggi helst norður til Akureyrar. Mikill fjöldi gesta hefur verið í bænum síðustu helgar og í rauninni síðustu vikur. Aðsóknarmet hafa verið sett bæði í Hlíðarfjalli og Sundlaug Akureyrar og má fullyrða að fólksstraumurinn til bæjarins sé óvenju mikill miðað við árstíma.  

Opið hefur verið í Hlíðarfjalli í um 100 daga núna en á sama tíma í fyrra hafði verið opið í um 70 daga. Um 38.000 gestir hafa komið í fjallið það sem af er vetri en voru 17.000 á sama tíma í fyrra. Það er um 120% aukning á milli ára og munar um minna. Talið er að síðasta laugardag hafi um 2.500 manns verið í fjallinu þegar mest var. Aðsóknin hefur ekki verið síðri í Sundlaug Akureyrar en þar hefur gestum fjölgað um 20% í febrúar á milli ára. Líkast til var sett nýtt met síðasta laugardag miðað við árstíma en þá komu tæplega 1.300 manns í laugina. Það er svipaður fjöldi og oft hefur komið í laugina á dag um páskahelgina og má segja að nokkurs konar hátíðarstemning hafi ríkt þegar gestirnir komu sællegir með rauðar kinnar til að slaka á í pottunum eftir góðan dag í Hlíðarfjalli. Þá kom mikill fjöldi fólks í Glerársundlaug um helgina í tengslum við Goðamót Þórs í knattspyrnu í Boganum, þar sem voru saman komnir um 600 ungir knattspyrnumenn víðs vegar af landinu, auk þjálfara, fararstjóra og foreldra.

Frítt í Hlíðarfjall á miðvikudögum

Þessu til viðbótar hefur verið ákveðið að bjóða öllum bæjarbúum frítt í Hlíðarfjall, alla miðvikudaga í mars, frá kl. 13-15. Áhugasamir geta fengið skíðabúnað að láni í fjallinu, sem og skíðakennslu endurgjaldlaust á þessum tíma, í boði verkefnisins Hreyfing og útivist. Þeir sem vilja nýta sér þetta, þurfa að koma við KA-heimilinu á miðvikudögum og fá þar miða í fjallið.

Nýjast