Aðsókn komin í eðlilegt horf

Eva Björk Káradóttir, framkvæmdastjóri Hvalsafnsins á Húsavík. Mynd/epe.
Eva Björk Káradóttir, framkvæmdastjóri Hvalsafnsins á Húsavík. Mynd/epe.

Sumarið hefur farið vel af stað í Hvalasafninu á Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá Evu Björk Káradóttur framkvæmdastjóra hafa yfir 26.000 gestir heimsótt safnið það sem af er ári. Allt bendir til þess að aðsókn til Húsavíkur sé komin í fyrra horf frá því sem þekktist fyrir covid.

Eva segir að það kenni ýmissa grasa innan veggja safnsins þar sem mikil uppbygging hafi átt sér stað á undanförnum tveimur árum og mörg ný verkefni séu í farveginum.

Heillandi veröld sýndarveruleika

Leiðangrar yfir Atlandshafið

„Við erum mjög spennt fyrir því að kynna nýja tímabundna sýningu sem kallast Leiðangrar yfir Norður Atlantshafið. Gestir munu stíga inn í sýndarveruleika þar sem þeir upplifa heillandi veröld og taka þátt í tveim leiðöngrum um borð í seglbátnum Barba. Lagt er af stað frá Noregi og þaðan geta þátttakendur valið um að sigla til Svalbarða eða jafnvel alla leið heim til Íslands að Skjálfandaflóa. Siglt er í gegn um stórbrotið heimskauta landslag þar sem ýmsum hvölum bregður fyrir á leiðinni og þátttakendur læra um hvað vísindamenn eru að gera til þess að vernda hvalina,“ útskýrir Eva.

Markmið sýningarinnar er að veita innsýn í starf vísindamanna og sýna frá því hvernig rannsóknir eru framkvæmdar á vettvangi. Gestir sýningarinnar upplifa sig sem einn af teyminu í rannsóknarleiðangrinum. Sýningin verður opin frá 22. ágúst til 5. september. Eftir það verður efni sýningarinnar nýtt til kennslu í Borgarhólskóla og eftir það verður hún sett upp í söfnum og skólum í Noregi og Danmörku.

 Kvikmyndahátíð í annað sinn

Um helgina verður kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík haldin í annað sinn. „Þema hátíðarinnar er hafið og allar myndirnar sem voru valdar inn eiga það sameiginlegt að tengjast hafinu með einhverjum hætti,“ útskýrir Eva og bendir á að myndum sé skipt í alþjóðlegan-, norrænan- og nemenda flokk og að verðlaun verði veitt fyrir bestu myndina í hverjum flokki.

Alls keppa 15 myndir til verðlauna á hátíðinni sem fer fram 19. og 20. ágúst í Hvalasafninu. Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og dyrnar verða opnar frá 18:45 fram til kl. 23.  Dagskráin er aðgengileg á heimasíðu hvalasafnsins.

Skóglendi hafsins

Þarasýning

„Þeir sem hafa heimsótt safnið í sumar hafa tekið eftir nýrri sýningu sem við erum að leggja lokahönd á og ber titilinn Skóglendi hafsins.  Sýningin er styrkt af safnaráði og er unnin í samstarfi við Erlend Bogason,“ segir Eva en Erlendur er einn reynslumesti kafari Íslands. Hann rekur köfunarmiðstöðina Strýtuna í Eyjafirði og setti upp vefsíðuna Sjáfarlíf sem er fræðsluvefur um lífríki hafsins við Ísland. „Myndefni frá Erlendi er nýtt til þess að skapa upplifun af því að standa á botni sjávar undir fallegum gróðri sem dansar róandi með hafstraumum.  Lífríki í þaraskógum er með því þéttsetnasta sem þekkist á jörðinni, og sjávargróður framleiðir meira en helming alls súrefnis á jörðinni. Þetta er vistkerfi sem er viðkvæmt fyrir breytingum og því er mikilvægt að við séum meðvituð um þau áhrif sem við, mannveran, völdum,“ segir Eva og bætir við að á næstu vikum verði Húsavíkingum og nærsveitungum boðið á formlegar opnanir tengdum þessum viðburðum. „Við vonumst innilega til að sjá sem flesta,“ segir Eva að lokum og minnir á að öllum standi til boða að kaupa árskort í safnið á sama verði og venjulegur aðgöngumiði. Þá séu börn 17 ára og yngri velkomin án greiðslu.  


Athugasemdir

Nýjast