Aðgerðaráætlun fyrir eldri borgara

Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar óskar eftir því við frístunda- og velferðarráð að mynda samráðshóp um aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara í samræmi við velferðar- og íþróttastefnu Akureyrarbæjar. Meirihluti bæjarráðs leggur til að horft verði sérstaklega til nýútkominnar skýrslu um heilsueflingu aldraðra.

Hallgrímur Gíslason, formaður félags eldri borgara á Akureyri (EBAK), ítrekaði ósk félagsins og öldungaráðs nýverið um að unnin verði heildstæð aðgerðaáælun vegna þjónustu við eldri borgara í samvinnu allra viðkomandi aðila. Málið var áður til umræðu á fundi bæjarráðs þann 13. febrúar 2020 og 5. mars 2020 og var þá vísað til samráðsfundar bæjarstjórnar og öldungaráðs en engin ákvörðun var tekin.

Hlynur Jóhannsson hjá M-lista greiddi atkvæði á móti og sagðist í bókun vera á móti því að setja þetta í enn eina nefndina. „Ég tel að eldra fólk eigi inni hjá bænum að þetta sé unnið með skilvirkari hætti. Eins og þetta er afgreitt hjá bæjarráði er verið að tefja málið,“ sagði í bókun Hlyns.

Of lítið húsnæði og langar boðleiðir

Hallgrímur Gíslason skrifar grein í blaðinu um málefni eldri borgara í bænum og segir fólk oft hafa kvartað undan löngum boðleiðum. Sameining búsetu- og fjölskyldusviðs í eitt velferðarsvið um síðustu áramót eigi að vera til einföldunar.

„Aukið íbúasamráð á einnig að hjálpa til í þessu efni. Eldri borgurum kemur til að fjölga mikið á næstu árum og við því er nauðsynlegt að bregðast,“ segir Hallgrímur. Hann segir Félag eldri borgara á Akureyri vilji leggja sitt af mörkum með því að vinna með Akureyrarbæ að góðri og uppbyggilegri samveru og öflugu tómstundastarfi. Of lítið húsnæði hamli hins vegar þróun þeirrar starfsemi. Til að unnt sé að bregðast við fjölguninni þurfi að gera áætlun um hvernig á að bregðast við henni á næstu árum. Aðalmálið fyrir aldurshópinn sé heilsuefling.


Nýjast