Aðgengi íbúa að framhaldsskólamenntun ógnað

Framhaldsskólinn á Húsavík
Framhaldsskólinn á Húsavík

Jóney Jónsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík mætti á fund bæjarráð í lok október til að fara yfir stöðu skólans eins og Skarpur hefur sagt frá. Hún lýsti yfir þungum áhyggjum yfir rekstrarstöðu Framhaldsskólans á Húsavík og sagði það ólíðandi að ríkisreknar stofnanir væru settar í þessa stöðu.

Bæjarráð hélt áfram að fjalla um grafalvarlega stöðu skólans 10. nóvember sl. Komið hefur fram að ekki eru til fjármunir til að reka grunnþjónustu skólans fram til áramóta. Skólanefnd framhaldsskólans á Húsavík hefur nú sent frá sér ályktun þar sem meðal annars kemur fram að rekstarfé hafi ekki borist með reglubundnum hætti allt þetta ár, það hafi leitt til þess að skólinn hefur safnað skuldum sem komin eru í vanskil. Þetta hefur gert skólanum erfitt fyrir að reka grunnþjónustu sína. „Nú hefur þolmörkum verið náð og því óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða sem gera skólanum kleift að sinna lagalegum skyldum sínum og tryggja aðgengi íbúa svæðisins að framhaldsskólanámi,“ segir í ályktuninni.

Hafa þurft að draga úr launakostnaði

Skólinn hefur þegar þurft að draga saman í launakostnaði, draga úr í stjórnun sem leiðir óhjákvæmilega til skertrar þjónusta til nemenda. Hluti skulda skólans stafar af því að launakostnaður á síðasta ári var mun hærri en fjárframlög skólans. Fjárframlög hafa ekki aukist í samræmi við hækkun kennaralauna. Þá var gert ráð fyrir því innan ráðuneytisins að stytting stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú myndi skila hagræðingu. „Þar með átti launaliðurinn að lækka, en það gerist auðvitað ekki í hvelli. Svo er dýrt að klára þá sem eru á eldri námsskránni, en það er að verða frágengið,“ sagði Jóney Jónsdóttir skólameistari Framhaldsskólan í samtali við Vikudag.is. Hún bendir jafnframt á að gera megi ráð fyrir að nemendum fækki þegar námið er komið niður í þrjú ár. Framhaldsskólinn á Húsavík sé hins vegar af þeirri stærðargráðu að hann er ekki í aðstöðu til að fækka kennurum.

Ályktun skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík í heild sinni:

Fjárhagsleg staða Framhaldsskólans á Húsavík er grafalvarleg. Vegna rekstrarhalla, sem að lang mestu leyti er tilkominn  vegna launahækkana, hefur skólanum ekki borist rekstrarfé með reglubundnum hætti allt þetta ár. Það hefur leitt af sér talsverða skuldasöfnun og vanskil og nú er svo komið að skólinn á í talsverðum vanda með að reka grunnþjónustu sína.

Stjórnendum skólans hefur með útsjónarsemi og velvilja birgja tekist að reka hann á takmörkuðum framlögum þar til nú, m.a. með lækkun starfshlutfalls stjórnenda og skerðingu námsframboðs. Nú hefur þolmörkum verið náð og því óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða sem gera skólanum kleift að sinna lagalegum skyldum sínum og tryggja aðgengi íbúa svæðisins að framhaldsskólanámi.

Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni og kallar eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja rekstrargrundvöll skólans."

 

 

Nýjast