Sýningin sem núna hangir uppi í Listasafninu, ber yfirskriftina "Orð Guðs" og stendur hún til 14. desember. Á sýningunni eiga sex listamenn verk sem fjalla um og vekja upp spurningar um ýmsa þætti kristinnar trúar. Gengið er út frá að færa trúarlega umræðu inn í íslenskan samtíma og á öðrum vettvangi en við höfum átt að venjast.
Á sýningunni er nýstárlegt verk eftir franska listamanninn Etienne de France þar sem þema kvöldmáltíðarinnar, hins sígilda viðfangsefni trúarlegrar listar á vesturlöndum er látið spegla veruleika samtímans á kómískan og gagnrýnin hátt. Sýnt verður nýtt verk eftir Steingrím Eyfjörð þar sem hugað er að ímynd og vilja Guðs í gagnvirku samtali við áhorfendur sem eru hvattir til að draga upp sína eigin hugmynd af Guði.
Leitin að gralinum á Kili er viðfangsefni Jeannette Castioni og sett í samhengi við spurningar um fjársjóð, leyndardóma og leitina að sannleikanum. Í verkinu fjallar hún um ímynd og áhrif Maríu meyjar í kristinni kenningu, um móðurlíkamann sem iðulega er upphafinn og afnumin á sama tíma. Ólöf Nordal sýnir innsetningu sína Volto santo eða hina heilögu ásjónu þar sem kristsmyndin er skoðuð í samhengi við sauðfjármenningu Íslendinga, með tilliti til lambsins, hirðisins og ekki síst forustusauðarins.
Aðrar heilagar táknmyndir kristninnar hvað varðar sköpunarkraft Guðs og manna eru túlkaðar í verkum Þóru Þórisdóttur með sérstöku tilliti til kvennaguðfræði og veruleika heilags anda. Bænin sjálf, svar mannsins við ákalli Guðs mun fá sinn sess á sýningunni þar sem Arnaldur Máni Finnson býður upp á óvenjulega aðstöðu til bænahalds og íhugunar. Þá eru hinum ýmsu kristnu trúfélögum á Akureyri og víðar boðið að taka þátt í sýningunni í formi leiðsagnar þar sem tækifæri skapast til hugmyndalegrar samsömunar eða aðgreiningar eftir þörfum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.