Aðgangseyrir að Listasafninu á Akureyri felldur niður

Ákveðið hefur verið að fella niður aðgangseyri að Listasafninu á Akureyri og verður nú ókeypis fyrir gesti og gangandi að skoða sýningar þess. Sýningar Listasafnsins hafa jafnan vakið mikla athygli og er um að gera fyrir bæjarbúa að nýta sér þetta tækifæri til að eiga góðar stundir í sölum þess.  

Sýningin sem núna hangir uppi í Listasafninu, ber yfirskriftina "Orð Guðs" og stendur hún til 14. desember. Á sýningunni eiga sex listamenn verk sem fjalla um og vekja upp spurningar um ýmsa þætti kristinnar trúar. Gengið er út frá að færa trúarlega umræðu inn í íslenskan samtíma og á öðrum vettvangi en við höfum átt að venjast.

Á sýningunni er nýstárlegt verk eftir franska listamanninn Etienne de France þar sem þema kvöldmáltíðarinnar, hins sígilda viðfangsefni trúarlegrar listar á vesturlöndum er látið spegla veruleika samtímans á kómískan og gagnrýnin hátt. Sýnt verður nýtt verk eftir Steingrím Eyfjörð þar sem hugað er að ímynd og vilja Guðs í gagnvirku samtali við áhorfendur sem eru hvattir til að draga upp sína eigin hugmynd af Guði.

Leitin að gralinum á Kili er viðfangsefni Jeannette Castioni og sett í samhengi við spurningar um fjársjóð, leyndardóma og leitina að sannleikanum. Í verkinu fjallar hún um ímynd og áhrif Maríu meyjar í kristinni kenningu, um móðurlíkamann sem iðulega er upphafinn og afnumin á sama tíma. Ólöf Nordal sýnir innsetningu sína Volto santo eða hina heilögu ásjónu þar sem kristsmyndin er skoðuð í samhengi við sauðfjármenningu Íslendinga, með tilliti til lambsins, hirðisins og ekki síst forustusauðarins.

Aðrar heilagar táknmyndir kristninnar hvað varðar sköpunarkraft Guðs og manna eru túlkaðar í verkum Þóru Þórisdóttur með sérstöku tilliti til kvennaguðfræði og veruleika heilags anda. Bænin sjálf, svar mannsins við ákalli Guðs mun fá sinn sess á sýningunni þar sem Arnaldur Máni Finnson býður upp á óvenjulega aðstöðu til bænahalds og íhugunar. Þá eru hinum ýmsu kristnu trúfélögum á Akureyri og víðar boðið að taka þátt í sýningunni í formi leiðsagnar þar sem tækifæri skapast til hugmyndalegrar samsömunar eða aðgreiningar eftir þörfum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast