Aðflugsbúnaður á Akureyrarflugvelli í uppnámi

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Uppsetning á nýjum aðflugsbúnaði á Akureyrarflugvelli hefur reynst mun dýrari en áætlað var. 80 milljónir vantar til að ljúka verkinu. Frá þessu er greint á vef Rúv.

Þegar reglubundið þotuflug frá Bretlandi til Akureyrar hófst í vetur komu í ljós vandræði við að lenda á Akureyrarflugvelli í slæmu skyggni. Flugmenn sem þekktu illa aðstæður snéru ítrekað frá. Fljótlega var því kallað eftir öflugri aðflugsbúnaði. Til kaupanna fengust 100 milljónir úr ríkissjóði. Pantaður var svokallaður ILS búnaður og undirbúningur er hafinn að uppsetningu.

Aðflugsbúnaðinum fylgja umtalsverðar framkvæmdir við báða enda vallarins. Breyta þarf skipulagi og stækka öryggissvæði að hluta. En mun veigameiri fyllingar þarf undir búnaðinn en ráð var fyrir gert. Það hefur hleypt upp kostnaðinum og áætlun upp á 100 milljónir króna er nú orðin 180 milljónir.

„Við náttúrulega getum ekki klárað þetta nema að fá fjármögnun fyrir því sem vantar upp á,“ segir Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri Isavia á Akureyrarflugvelli, í samtali við Rúv.

„Þannig að það er bara mikil óvissa um hvort þessir fjármunir náist.“

Nýjast