Aðflugsæfingar en ekki heræfingar á Akureyrarflugvelli

Orrustuflugvél á sveimi yfir Akureyri en bæjarbúar urðu vel varir við lætin í orrustuþotunum. Ljósmy…
Orrustuflugvél á sveimi yfir Akureyri en bæjarbúar urðu vel varir við lætin í orrustuþotunum. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Íbúar á Akureyri urðu vel varir við hávaða vegna aðflugsæfinga NATO á Akureyrarflugvelli í síðustu viku. Bandarískar F-15-orrustuþotur flugu þá inn til lendingar á Akureyrarflugvelli og notuðu meðal annars afturbrennara vélanna, með tilheyrandi látum.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væri liður í loftrýmisgæslu NATO í kringum Ísland. Akureyraflugvöllur væri hafður til vara á eftir Keflavíkurflugvelli og því þyrfti að æfa þar aðflug. NATO sinni loftrýmisgæslu í kringum Ísland fjórum til sex sinnum á ári og alltaf einhverjar vikur í senn.

Hann segir að aðflugsæfingum af þessu tagi eigi helst ekki að fylgja nein hávaðamengun og segist hann hafa bent fulltrúum Landhelgisgæslunnar á það. Hann segir jafnframt að margir hafi misskilið æfingar NATO.

„Þetta voru ekki heræfingar eins og margir héldu. Þetta eru aðflugsæfingar en ekki heræfingar. Akureyrarflugvöllur er hafður til vara fyrir lendingar og því er mjög brýnt að þeir sem koma til með að þurfa að lenda á vellinum í einhverju neyðartilfelli kunni það og hafi reynslu af því.“


Athugasemdir

Nýjast