Aðeins tvö tilboð í brúargerð fyrir vinnuumferð í tengslum við Vaðlaheiðargöng
Aðeins bárust tvö tilboð í framkvæmdir við bráðabirgðabrú fyrir vinnuumferð, í tengslum við gerð
Vaðlaheiðarganga. Vegagerðin bauð verkið út fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf. og voru tilboðin opnuð eftir hádegi í dag. G.
Hjálmarsson ehf. á Akureyri átti lægra tilboðið í verkið, tæpar 22,4 milljónir króna, eða 84,8 kostnaðaráætlun.
Árni Helgason ehf. í Ólafsfirði átti hærra tilboðið í verkið, rúmar 23,8 milljónir króna eða 90,3% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á tæpar 26,4 milljónir króna. Fimm verktakar tóku útboðsgögn en aðeins tveir skiluðu inn tilboði sem fyrr segir. Um var að ræða tilboð í gerð stöpla undir bráðabirgðabrú yfir Hringveg (1) við fyrirhugaðan munna Vaðlaheiðarganga, gerð fyllingu undir brúarstólpa og gerð bráðabirgðavegar til að auðvelda aðkomu á svæðið. Fylling undir stöplana kemur úr sprengdu grjóti sem taka á úr forskeringu við göngin. Framkvæmdir við verkið má hefja 10. október og skal þeim að fullu lokið 30. nóvember nk.