Aðalfundur Völsungs: Félagið rekið með hagnaði

Aðalfundur Íþróttafélagsins Völsungs á Húsavík var haldinn í gær, miðvikudaginn 11. maí og var mæting með ágætum. Elín Gunnsteinsdóttir gekk úr aðalstjórn Völsungs og sæti hennar tók Berglind Jóna Þorláksdóttir. Ný aðalstjórn Völsungs er því þannig skipuð: Guðrún Kristinsdóttir, formaður. Þóra Kristín Jónsdóttir, gjaldkeri. Meðstjórnendur eru Heiðar Hrafn Halldórsson, Már Höskuldsson og Rannveig Þórðardóttir. Og varamenn Víðir Svansson og Berglind Jóna Þorláksdóttir.
Guðrún Kristinsdóttir, formaður Völsungs, fór yfir skýrslu aðalstjórnar fyrir starfsárið 2015. Hún talaði um fyrirmyndarfélagið Völsung, íþróttafólk Völsungs og rekstur meistaraflokka í knattspyrnu sem hefur gengið vel. Einnig minntist Guðrún á það mikla uppbyggingarstarf sem skíðagöngudeildin hefur unnið á félagssvæði sínu við Reyðarárhnjúk.
Ársreikningar Völsungs voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. Rekstur íþróttafélagsins Völsungs er í góðum málum og félagið í heild sinni rekið með hagnaði. Hagnaður ársins 2015 nam 3.826.336 krónum.
Á fundinum var árgjald Völsungs fyrir félaga 18 ára og eldri samþykkt óbreytt. Árgjaldið var 3000 kr fyrir félagsmenn 18 ára og eldri og helst óbreytt.
Samþykkt var að stofna afmælisnefnd innan Völsungs sem fengi það verkefni að skipuleggja viðburði kringum afmæli félagsins, en það verður 90 ára 12. apríl 2017. Í nefndinni munu sitja Guðrún Kristinsdóttir, formaður félagsins, Óskar Páll Davíðsson, Hilmar Valur Gunnarsson, ásamt tveimur meðlimum úr sögunefnd Völsungs.
Einnig var samþykkt að stofna afrekssjóð Völsungs sem fengið það verkefni að veita afreksfólki í Völsungi 16 ára og eldri fjárhagslegan styrk vegna æfinga eða keppni og búa þeim sem besta aðstöðu til að stunda íþrótt sína. Sjóðurinn styrkir einnig við bakið á þjálfurum Völsungs sem sækja sér aukna menntun erlendis. JHF/js