Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga verður haldinn í dag, mánudaginn 11. apríl kl. 13:30 í Hótel Skúlagarði í Kelduhverfi.
Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Fram fer afhending Hvatningarverðlauna félagsins sem veitt eru árlega. Í fyrra hlaut verðlaunin Vélaverkstæðið Árteigi sf. fyrir framúrskarandi framleiðslustarfsemi þar sem hugvit og fádæma verkþekking eru tvinnuð saman til hagnýtingar vatnsafls.
Dagskránni lýkur með opnu málþingi samkvæmt venju og er yfirskrift þess að þessu sinni „Jarðhitaauðlindir við Öxarfjörð og fjölnýting jarðhita.“ Gert er ráð fyrir að dagskránni verði lokið kl. 16:30.
Áhugafólki um málefni félagsins og atvinnumál í héraði er sérstaklega boðið að vera viðstatt afhendingu Hvatningarveðlaunanna og að taka þátt í málþinginu. Frummælendur verða Guðmundur Ómar Friðleifsson yfirjarðfræðingur hjá HS Orku og Sigurður Markússon verkefnisstjóri jarðvarma og nýsköpunar hjá Landsvirkjun. JS