Að smala köttum

Ragnar Sverrisson kaupmaður
Ragnar Sverrisson kaupmaður

Barnsleg gleði hríslaðist um bæjarfulltrúa Akureyrar þegar ákveðið var að mynda einn meirihluta í bæjarstjórn og útrýma allri andstöðu innan þess viðkvæma hóps. Gleðilætin rötuðu alla leið í þátt Gísla Marteins í sjónvarpinu þegar Hilda Jana kom þar fram og útmálaði hvílík snilld þarna hefði verið sett á svið og gerði grín að þeim sem efuðumst um hana.  Sjálfur greiddi ég atkvæði í mínum flokki á móti þessari ákvörðun því ég óttaðist að þar með myndu bæjarfulltrúar renna saman í einangraða heild sem forðaðist enn frekar að hafa samband við bæjarbúa til að spilla ekki heimilisfriðinum og þeirri værð og þeim þægindum sem honum fylgir jafnan.

Ekki verður annað sagt en að reynslan hafi sýnt að þessi ótti minn hafi verið á rökum reistur. Nægir að vitna til skrifa minna á þessum vettvangi í síðustu viku þar sem rakin voru dæmi um algjöra þögn bæjarfulltrúa gagnvart bæjarbúum jafnvel þó þeir hafi hvað eftir annað spurt uppbyggilegra spurninga opinberlega um málefni sem skiptu bæjarbúa miklu.  Þeim hefur aldrei verið svarað síðustu mánuði enda bæjarfulltrúar búnir að loka sig algjörlega inni í sinni býkúpu og hlusta eingöngu á suðið þar inni. Þetta hafa bæjarbúar skynjað og spyrja sig eðlilega hvað sé að gerast í okkar eigin bæjarstjórn.  Þetta ágæta fólk á því töluvert erfitt með að ákveða hvað það á að kjósa á laugardaginn enda sýnast flest framboðin vera sami grauturinn í sömu sameiginlegu skálinni.

Svo voru fulltrúar framboðanna spurðir um helgina hvort þeir hygðust stefna á sömu snilldina áfram – að hafa bara einn meirihluta en engan minnihluta.  Þá gerðust þau undur að allir – ég endurtek ALLIR – fulltrúar framboðanna lýstu sig andvíga slíku fyrirkomulagi eftir kosningar. Af  því verður ekki annað ráðið en að viðurkennt hafi verið að einn meirihluti hafi reynst illa.  Nema ástæðan sé bara sú að bæjarfulltrúar séu feimir við að ganga til kosninga eftir að hafa orðið varir við óánægja bæjarbúa með framgöngu þeirra síðustu misseri og hafa sig því lítt í frammi.  Allavega er ljóst að nærri þriðjungur kjósenda hefur ekki gert upp hug sinn enn þá og botnar greinilega lítið í ástandinu og skynjar engan mun á framboðunum. 

Þegar þessi Pótemkintjöld eru nú fallin og núverandi bæjarfulltrúar afneita í raun hver um annan þveran meintri snilld sem þeirri sýndarmennsku fylgdi stendur kjósendum þó til boða framboð sem tóku ekki þátt í þessum landsfræga sjónleik. Þekkt er þegar Jón Gnarr með Besta flokkinn sætti lagi við slíkar aðstæður og vann glæsilegan sigur í Reykjavík.  Kom síðan verulega á óvart með góðri frammistöðu þegar hann varð borgarstjóri án þess að þykjast vita alla skapaða hluti. Nú hafa kettir bæjarins sína fulltrúa í kjöri til bæjarstjórnar á laugardaginn og vitað er að margir horfa til þeirra enda hefur slíkt fólk hæfileika og getu til að laga sig að þörfum málleysingja sem erfitt er að smala. Sjálfur þekki ég fólk sem er á þeirri skoðun að slíkir hæfileikar myndu nýtast vel í næstu bæjarstjórn Akureyrar.  

Ragnar Sverrisson

 


Athugasemdir

Nýjast