Að jafnaði eru einn til þrír á götunni á Akureyri

Færst hefur í vöxt að einstaklingar séu heimilislausir á Akureyri en á Norðurtanga verður reyst bráð…
Færst hefur í vöxt að einstaklingar séu heimilislausir á Akureyri en á Norðurtanga verður reyst bráðabirgðalausn fyrir þann hóp. Mynd/Mþþ.

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt á Akureyri að einstaklingar séu utangarðs og/eða heimilislausir. Þetta segir Guðrún Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar„Þeir sem eru beinlínis heimilislausir á götunni eða búa á ýmsum stöðum í óþökk annarra geta verið frá einum og upp í þrjá aðila,“ segir Guðrún.

Eins og Vikudagur greindi frá fyrir skemmstu hefur skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkt að veita vesturhluta lóðarinnar númer sjö við Norðurtanga til að reisa smáhýsi tímabundið til tveggja ára til að leysa búsetuúrræði fyrir heimilislausa.

„Það sem er sameiginlegt þessum hópi er að einstaklingarnir glíma við fjölþættan vanda, gjarnan langt gengna fíknisjúkdóma ásamt hegðunar og/eða geðröskunum af einhverju tagi,“ segir Guðrún.

Hún segir vanda þessa hóps vera með þeim hætti að hann getur illa búið í nábýli við aðra, s.s. í venjulegum fjölbýlishúsum. „Bæjarfélagið hefur ákveðnar skyldur við þá sem ekki geta útvegað sér húsnæði á eigin forsendum og þarf þess vegna að huga að húsnæði fyrir fólk í þessari stöðu.“

Guðrún segir að þrátt fyrir mikinn vanda þessa hóps sé unnið að endurhæfingu einstaklinga eftir því sem mögulegt er og reynt að samhæfa heilbrigðis- og félagskerfið sem bæði þurfa að koma að málum ef vel á að vera.

„Í hverju tilviki er m.a. unnið að lausnum í húsnæðisvanda viðkomandi og samhliða sett inn sú þjónusta sem metin er nauðsynleg. Með þennan hóp í huga stendur til að bærinn komi upp tveimur litlum einbýlishúsum sem eru hugsuð sem tímabundin lausn fyrir þá sem á þurfa að halda. Staðsetning húsanna á lóð á hafnarsvæðinu á Norðurtanga er bráðabirgðalausn sem hugsuð er til að flýta fyrir úrlausn mála á með-
an unnið er að varanlegri lausnum,“ segir Guðrún.

Við val á staðsetningu var m.a. horft til þess að Norðurtanginn er í göngufæri við nauðsynlega þjónustu, s.s. matvöruverslanir og almenningssamgöngur.

Nýjast