Flugið gekk vel á liðnu ár, það er hæg og stöðug aukning, segir Ari Fossdal stöðvarstjóri Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli. Í heild nam aukning í innanlandsflugi félagsins um 2%, en aukningin varð heldur meiri á leiðinni Reykjavík-Akureyri. Að venju var mikið um að vera í fluginu fyrir jól og áramót og fjöldi farþega mikill, en vegna veðurs þurfti að fella niður flug á aðfangadag.
Ari segir að veður hafi þó almennt ekki sett mikið strik í reikninginn hvað flugið varðar árið 2011. Hvað frakt varðar var hún svipuð að magni á nýliðnu ári miðað við fyrra ár, en að venju var líflegt í fraktinni um jólin að sögn Ara. Það var mikið að gera hjá okkur og allt gekk vel. Áberandi fleiri erlendir ferðamenn hafa ferðast með Flugfélagi Íslands í ár miðað við fyrri ár, en Ari segir að bæði nú í vetur og eins á komandi mánuðum sé töluverð aukning á ferðalögum erlendra gesta. Erlendir ferðamenn hafa verið töluvert á ferðinni undanfarna mánuði og eins sjáum við á bókunum fram í tímann, bæði nú á næstu mánuðum og eins allt fram á sumar að þeir eru mikið á ferðinni. Það er ánægjuleg viðbót.
Flugfélag Íslands mun í sumar fljúga leiguflug fyrir Icelandair milli Akureyrar og Keflavíkur og ganga bókanir vel, en farþegar í því flugi eru bæði heimamenn og útlendingar. Við sjáum fram á vel merkjanlega aukningu hjá okkur vegna þessa tengiflugs, en bókanir eru hafnar og þær lofa góðu, segir Ari. Öflugt kynningarstarf undanfarin misseri er að skila sér, bæði hjá Flugfélaginu og eins Icelandair og þá nefnir Ari að fjöldi flugfélaga hafi Keflavíkurflugvöll sem áfangastað og það þýði að fleiri eru á ferðinni. Ferðamenn eru svo hægt og bítandi að skila sér í auknum mæli norður í landi.
Átakið Skemmtum okkur innanlands er sem fyrr í fullum gangi og gengur vel. Það er unnið í samstarfi við hótel á Akureyri og leggur jafnan fjöldi fólks leið sína norður í land yfir vetrartímann sér til skemmtunar. Þá nefnir Ari að sífellt sé verið að bæta vef flugfélagsins, en mikill meirihluti bókana fari í gegnum hann. Stór hluti okkar viðskiptavina bókar flugferðina í gegnum netið enda er það alltaf ódýrast, segir hann.