Á tjaldapari í golfi

Tjaldurinn var ekki par hrifinn af að þurfa unga út úr golfkúlu.
Tjaldurinn var ekki par hrifinn af að þurfa unga út úr golfkúlu.

Jóhann Ólafur Halldórsson er mikill golfáhugamaður, hann gerðist nýlega meðlimur í Golfklúbbi Akureyrar og var að spila sinn fyrsta hring á Jaðarsvelli eftir inngönguna (Hann hafði þó spilað á vellinum áður). Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þegar Jóhann var á 2. braut átti hann högg í átt að holu (eða því sem næst), „en eins og stundum gerist lenti kúlan nokkuð til hliðar við holuna, framan við grjótmel og skoppaði kúlan upp í melinn,“ segir Jóhann. Þegar hann vitjaði kúlunnar tóku á móti honum tjaldahjón og höfði hátt.

„Ég varð hins vegar steinhissa þegar ég sá ástæðuna. Kúlan hafði rúllað alla leið inn í hreiðrið þeirra og var snyrtilega við hlið þriggja eggja sem voru stráheil! Tjaldurinn gerði heiðarlega tilraun til að leggjast ofan á eggin og kúluna en var hundfúll með þessa óumbeðnu viðbyggingu í hreiðrinu.“

Tjaldurinn hafði hátt þegar Jóhann fjarlægði kúluna úr hreiðrinu, en var fljótur að leggjast á egg sín eftir að hinn óboðni golfari hafði sig á brott. „Ég hef fengið fugl í golfi en aldrei þrjú egg og tjaldapar,“ segir Jóhann. /epe.

Frásögn Jóhanns má lesa í heild á vef Golfklúbbs Akureyrar.

Nýjast