„Á Snapchat þorði ég loksins að vera ég sjálfur“

Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee.
Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee.

Greinin birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem unnið var af fjölmiðlafræðinemum við Háskólann á Akureyri. 

Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee, er átján ára Akureyringur og nemandi við Verkmenntaskólann á Akureyri. Binni starfar á hárgreiðslustofu en er fyrst og fremst landsfræg samfélagsmiðlastjarna. Mögulega kannast ekki allir við nafnið, sérstaklega ekki eldri kynslóðin, en flestir þeir sem yngri eru þekkja Binna Glee. Á  samfélagsmiðlinum Snapchat fylgjast sextán til sautján þúsund manns með honum daglega.

Á Snapchat sýnir Binni frá sínu daglega lífi sem ungur einlægur Akureyringur og áhugamaður um förðun. Ævintýri hans á Snapchat byrjaði í apríl 2016, en þá gerði hann aðganginn sinn opinn almenningi. Binni segir vinkonu sína hafa hvatt sig áfram til að byrja með.

"Áður en hún sagði mér að opna aðganginn var þetta bara fyrir vini mína, eins og það er hjá flestum, en fljótlega eftir að ég gerði aðganginn opinn varð þetta rosalega vinsælt. Á einum mánuði var ég kominn með fimm þúsund fylgjendur,” rifjar Binni upp.

Aðspurður um hvort hann sé á meðal vinsælustu snappara landsins segir hann svo vera.

„Mér finnist eitthvað vandræðalegt að segja það en já, ég er einn sá vinsælasti á Snapchat á Íslandi. Það horfa um sextán til sautján þúsund manns á mig daglega að meðaltali á snappinu. Talan getur farið upp í tuttugu þúsund og niður í fimmtán þúsund,“  segir Binni.

Bætir hann við að ferlið frá því að hann opnaði aðganginn þar til hann varð svona vinsæll hafi verið mjög hratt. Hann veit hreinlega ekki hvað olli þessum gríðarlegu vinsældum.

„Það komu bara allir þessir fylgjendur og ég var í sjokki yfir því. Ég hef pælt í því þegar ég fer á tónleika þar sem eru kannski tólf þúsund manns og hugsað um að það að séu fleiri að fylgjast með mér eru í salnum. Ég myndi ekki einu sinni þora að fara upp á svið og tala við allt þetta fólk. Það væri of mikill pressa,“ segir hann.

„Ég held að það hafi gert það auðveldara fyrir mig að opna mig í gegnum símann þar sem maður getur ekki séð fólkið sem horfir á mann“.

Þrátt fyrir að vera orðinn þessi mikla stjarna segist Binni alltaf verið feiminn. „Ég hef alltaf verið mjög feiminn, alveg síðan ég var lítill. Snapchat hefur hjálpað mér rosalega við að losa mig við feimnina ég er mjög þakklátur fyrir það. Þetta hefur gefið mér mörg tækifæri og meira sjálfstraust“.

Aðspurður um hvers vegna svo margir vilji fylgjast með honum segist Binni halda að það hafi meðal annars eitthvað að gera með áhuga hans á förðun.

„Ég hafði svo mikinn áhuga á förðun þegar ég opnaði snappið og ég sýndi mikið af því.  Ég held að ég hafi verið eini strákurinn sem var að sýna eitthvað frá förðun,“ segir hann.

Þrátt fyrir þessar  miklu vinsældir finnst Binna hann nú samt bara vera ósköp venjulegur strákur. Þá segist hann leggja mikla áherslu á að vera fyrirmynd fyrir þá ungu krakka sem fylgja honum á miðlinum. „Ég er með marga unga fylgjendur og vill ekki hafa neitt dónalegt eða eitthvað þannig inni á snappinu. Ég reyni að vera einlægur. Ég veit að margir elska að fylgjast með mér af því ég er ég sjálfur og er stoltur af því“.

Þegar talið berst að framtíðaráformum Binna segist hann vera opinn fyrir alls konar. „Ég segi alltaf að mér líði vel í því sem ég er að gera núna en mig langar mikið til þess að prófa að ferðast. Ég myndi jafnvel vilja vinna við að ferðast í framtíðinni. Förðunin er meira svona áhugamál. Ég hef líka mikinn áhuga á tónlist og er alltaf syngjandi. Mig langar til að prófa að fara í söngskóla,“ segir Binni.

Nokkrum mánuðum áður en Brynjar opnaði snappið sitt kom hann út úr skápnum, þá sextán ára gamall. Hann segir Snapchat hafa hjálpað sér mjög í því ferli.

„Eftir að ég kom út úr skápnum og fór á Snapchat leið mér miklu betur. Út af Snapchat þorði ég loksins að vera ég sjálfur og ég fékk rosalega mikið af góðum viðbrögðum út á það,“ segir Binni.

„Ég var að sýna að það væri allt í lagi að vera samkynhneigður og hef verið að fá skilaboð frá fólki sem segir að ég hafi hjálpað því að koma út úr skápnum. Mér finnst það geggjað,“ segir hann þakklátur.

„Ég fékk til dæmis skilaboð í fyrra frá fylgjanda sem var að spyrja mig hvað hann ætti að gera í sínum málum. Núna fyrir nokkrum dögum fékk ég aftur skilaboð þar sem hann þakkaði fyrir hjálpina við að koma út úr skápnum. Þetta er örugglega það besta við að vera snappari fyrir mér. Að geta hjálpað fólki“.

Þó að Binni sé þakklátur fyrir fylgjendur sína er opinbert líf ekki alltaf dans á rósum. Hann hefur fengið neikvæð og leiðinleg skilaboð send í gegnum miðilinn.

„Stundum voru skilaboðin nokkuð ljót. Þar sem ég hef aldrei verið lagður í einelti eða strítt þá brá mér mikið að svona skilaboðum væri beint til ín. Ég tók þau inn á mig og leið mjög illa yfir þessu. Fór nokkrum sinnum að gráta. Ég var bara ekki vanur þessu,“ segir hann en ítrekar að snapparalífið sé að mestu jákvætt.

„Ég held að þetta fólk sem er að senda svona á mig myndi aldrei þora að segja þetta við mig í persónu. Í skilaboðunum segja kannski einhverjir að ég sé hommi, sem er í sjálfu sér ekkert neikvætt þar sem ég er hommi,“ segir Binni og hlær.

Binni á ættir að rekja til Filippseyja. „Ég fæddist á Akureyri en mamma flutti til hingað frá Filippseyjum. Hún flutti eftir að hafa verið pennavinur pabba og kynntist honum síðan í persónu þegar hún kom sem au pair til Akureyrar,“ útskýrir hann.

Binni á því stóra fjölskyldu á Filippseyjum. Hann ætlar að skella sér  í heimsókn til þeirra á næsta ári og vera þar yfir sumarið. Spurður út í hvernig jólin séu á Filippseyjum segist hann ekki vera klár á því. „Ef ég á að segja alveg eins og er myndi ég ekki vilja fara þangað yfir jólin þar sem það er enginn snjór. Ég elska snjó. Hann gerir svo jólin jólaleg“.

Binni er sjálfur mikið jólabarn byrjar að hlusta á jólalög í síðasta lagi í byrjun október. Ef það eru einhverjir sem eiga eftir að koma sér í jólagírinn mælir hann með nokkrum jólalögum sem hann fullyrðir að svíki engan; Hugurinn fer hærra, Aðfangadagskvöld og O Holy Night með Mariah Carey.

Að lokum segir Brynjar góðan andlitsmaska vera jólagjöfina í ár en maskakvöld eru fastur liður á snappinu hans.

„Ég vil endilega hvetja fleiri stráka til að vera með í maskakvöldinu. Við erum öll með húð. Margir sem halda að maskar séu bara fyrir stelpur en það er ekki þannig. Það er 2017, það er enginn að dæma. Fólk má vera hvernig sem er, málað eða ekki. Mér finnst að á Íslandi sé þetta lítið mál. Maður á alveg að geta verið maður sjálfur“.

 


Nýjast