Á fjórða hundrað manns á Vorfundi Samorku

Á fjórða hundrað manns munu taka þátt í Vorfundi Samorku sem haldinn verður í Hofi á Akureyri dagana 26.-27. maí. Alls verða flutt 39 erindi, að meðtöldu ávarpi iðnaðarráðherra, þar sem m.a. verður fjallað um rammaáætlun, virkjanakosti framtíðar, eftirspurn eftir raforku á Íslandi, nýorku og möguleika til framtíðar, áhrif loftslagsbreytinga á fráveitur, jarðskjálfta og jarðhita, umhverfismatsferli, vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu, fjarálestur sölumæla og margt fleira.  

Samhliða fundinum munu 23 fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu - verkfræðistofur, innlend iðnfyrirtæki, innflutningsaðilar, hugbúnaðarfyrirtæki, innheimtuþjónustur og fleiri. Vorfundur Samorku er haldinn á þriggja ára fresti og er nú haldinn í sjötta sinn. Fundirnir hafa ávallt verið haldnir á Akureyri. Áhersla er lögð á að örva og hvetja til faglegrar samvinnu orku- og veitufyrirtækja um tæknileg málefni, öryggismál og fleira, í því skyni að auka gæði þjónustunnar, ásamt því sem fjallað er um starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja.

Nýjast