Á fimmta tug nemenda hefur meistaranám í RES Orkuskólanum

RES Orkuskólinn verður settur í Ketilhúsinu á Akureyri á morgun, laugardag. Vel á fimmta tug nemenda hefur meistaranám í vistvænni orkunýtingu við skólann að þessu sinni. Nemendum hefur fjölgað nokkuð frá fyrsta árgangi en umsóknir um skólavist voru hátt í 100 talsins, víðs vegar að úr heiminum. Færri komust því að en vildu.  

Ávörp við skólasetninguna flytja Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Björn Gunnarsson, skólastjóri RES. Skólinn er einkarekin mennta- og vísindastofnun sem byggir starfsemi sína á forystu Íslendinga á sviði orkumála. Boðið er upp á eins árs alþjóðlegt meistaranám (MSc) í vistvænni orkunýtingu, auk leiðtogaskóla og sumarnámskeiða með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa.

Nýjast