Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Böðvar Jónsson
Böðvar Jónsson

Alþjóðlegs baráttudagus kvenna, þann 8. mars, var minnst bæði á Akureyri og í Reykjavík. Rætt var við Ingibjörgu Sólrúnu í sjónvarpsfréttum um stöðu kvenna í Afganistan og í Fréttablaðinu birtist grein eftir John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í tilefni dagsins. Athyglisverðast í grein utanríkisráðherrans var það sem hann sagði og dæmin sem hann nefndi um störf kvenna og mæðra á átakasvæðum. Yfirskrift greinarinnar er „Konur eru ein forsenda friðar“. Kerry segir einnig í greininni: „Og varanlegur friður fæst aldrei nema konur gegni lykilhlutverki“.  Kannski mun það hlutverk felast í því að mæður setja hnefann í borðið neita að senda syni sína eða dætur út á vígvellina sem fallbyssufóður. Syni og dætur sem þær hafa lagt alla sína ást og umhyggju í að ala upp og búa undir lífið. Við þær skelfilegu aðstæður sem skapast í stríði birtast ótrúlegir og dýrlegir eiginleikar konunnar.  Þær sýna ómælt hugrekki við að leita leiða til að komast af og bjarga börnum sínum og annarra þó þær þurfi að fórna til þess eigin lífi. Í því sambandi má líta til þess þegar konur stilltu sér upp fyrir nokkrum dögum milli hermanna Rússa og Úkraínumanna sem ógnuðu hvorir öðrum gráir fyrir járnum.

Konur og friðarferlin

Kerry segir í grein sinni: „Konur eru ein forsenda friðar“. Þegar að því kemur að þær koma að borðinu sem fullgildir þátttakendur í friðarferli þarf slíkt ferli að taka fullt tillit til þess að eiginleikar kvennleikans séu þar virtir. Í dag gefa fréttir ekki til kynna að konur komi að fundum um friðar-samninga eða þegar samið er um vopnahlé. Það er því ljóst að hugarfarsbreyting þarf að verða hjá þeim sem stunda stríðsrekstur og semja um frið eigi konur að komast að borðinu og verða „ein forsenda friðar“

Áhrif menntunar á misréttið

Í því sem hér hefur verið lýst liggur kannski vandi kynjamisréttisins frekar en í nokkru öðru. Það er skortur á skilningi og fullri viðurkenningu á þeim eiginleikum þar sem konan stendur manninum framar. Konan er gæskuríkari, næmari og innsæi hennar er sterkara. Aukin menntun kvenna um allan heim mun áður en langt um líður hafa gríðarleg áhrif í átt til endaloka stríðs og  stríðsátaka. Dæmi sem vekur þessar vonir slíka þróun er t.d. að rekstur stúlknaskóla er aftur kominn á fullt skrið í hinu stríðshrjáða Afganistan. Til þessa hefur heiminum verið stjórnað af afli. Maðurinn hefur drottnað yfir konunni bæði líkamlega og hugarfarslega. Þess sjást hinsvegar merki að að jafnvægið sé að breyast. Aflið er að tapa vægi sínu og hugarfarsleg árvekni innsæi og andlegir eiginleikar kærleika og þjónustu eru á uppleið en þar er konan sterk. Því ættu karlmannlegir og kvenlegir þættir síðmenningarinnar að stefna í réttara jafnvægi en verið hefur ef allt væri eðlilegt.

En ástandið er ekki fyllilega eðlilegt, það er við vanda að stríða, vanda sem líklega er síðasta vígi drottnunar karla yfir konum. Það eru öfl að verki sem misnota  og niðurlægja konur. Misnotkunin felst í mansali, barnaníði og kynbundnu ofbeldi af öllu tagi. Í dag eru margar stúlkur og konur sem líða fyrir slíka misnotkun.  Það sem gefur vonir um að þetta böl verði hreinsað út úr samfélaginu er sú staðreynd að það sem áður var falið er nú að koma upp á yfirborðið þannig að hægt er að leita leiða til að taka á því. Enn ein birtingarmynd misnotkunar felst í því hvernig kvenlíkaminn er notaður af markaðsöflunum í þágu skefjalausrar efnishyggju. Þessi þáttur verður kannski erfiðari viðureignar því margt af því sem felur í sér niðurlægingu og vanvirðingu er á gráu svæði í lagalegu tilliti.

Niðurstaða

„Mennt er máttur“ segir máltækið. Stóraukin sókn kvenna til náms og góðrar menntunar mun án nokkurs vafa leiða til þess að þau samfélagsmein munu hverfa sem standa í vegi fyrir því að kvenlegir eiginleikar njóti fullrar viðurkenningar til jafns við þá karllægu. Það er óhjákvæmilegt að það gerist og við það leysast úr læðingi öfl sem hafa verið í fjötrum. Sú breyting mun verða gæfuspor mannkynsins.  Veröld mannsins má þá líkja við hendur eins líkama. Þær eru skapaðar til að uppfylla hvor aðra,  í því felst snilldin. Það er þess vegna sem þær vinna saman með svo ótrúlaga fullkomnum hætti.

Lokaorð

Veröld mannsins hefur tvo vængi, annar er kvenkynið hinn karlkynið. Það er ekki fyrr en báðir vængir hafa jafnan styrk að fuglinn getur flogið. Haldist annar vængurinn áfram veikburða verður ekkert af flugi .....og mannkynið nær ekki þeim hæðum sem því stendur annars til boða. (Endursögn,  Abdu'l-Baha, Baha'i World Faith -  p. 288)

 Böðvar Jónsson

Höfundur er lyfjafræðingur á Akureyri

 

 

Nýjast