Á að sameina meistaraflokka Þórs og KA í knattspyrnu?

Í síðasta tölublaði Vikudags talar Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair Group, fyrir sameiningu meistaraflokka félaganna í knattspyrnu og bendir á hversu vel hafi tekist til með sameiningu kvennaliða félaganna og handboltans. Þá nefnir hann baráttu félaganna fyrir sömu peningunum sem ættu þá að nýtast einu liði betur en tveimur.

Tilgangurinn með sameiningu félaganna hlýtur fyrst og fremst að snúast um að búa til eitt gott knattspyrnulið sem gæti blandað sér í topp- baráttuna.

Ég efast satt besta að segja um að við getum stillt upp einu góðu liði úr þeim leikmönnum sem nú spila með sitthvoru félaginu. Góðu… og þá meina ég breiðum hópi leikmanna sem gætu barist um efstu sætin í úrvalsdeild.

Þá kemur krafan um að fá betri leikmenn sem kosta sitt.

Með einu liði og öllum þeim peningum (og hugsanlega meiri peningum) sem þau hafa úr að spila mætti styrkja það með enn betri innlendum eða erlendum leikmönnum en nú skipa liðin eða einfaldlega halda okkar bestu mönnum lengur heima sem nú eru margir lykilmenn í liðum á höfuðborgarsvæðinu.

Vandamálið eða eigum við að segja lúxusvandamálið er að ekkert bæjarfélag heldur úti jafn fjölbreyttri flóru íþróttagreina eins og Akureyri og samkeppnin um fjármuni er mikil. Þótt liðin væru sameinuð í eitt þá myndi samt sem áður annað knattspyrnulið verða til í bænum sem myndi gera kröfu um aðstöðu og peninga rétt eins og önnur íþróttafélög.

Það er óhjákvæmilegt m.v. þann fjölda sem hefur áhuga á að spila fótbolta þótt þeir vilji ekki leggja allt undir og æfa í líkingu við það sem ætlast er til í efstu deild. Við sjáum það í dag hvernig nágrannaliðin eru skipuð þ.e. á Grenivík, Dalvík og fleiri félögum á svæðinu.

Hin hliðin á málinu er svo þessi félagslega sýn og hvernig menn næðu sáttum um æfingaraðstöðu, heimavöll, og vinnuframlag. Handboltinn spilar í Höllinni sem kalla má hlutlaust svæði.

Eðlilegast væri því að spila á Akureyrarvelli með sameiginlegt knattspyrnulið með tilheyrandi viðbótarkostnaði.

Kostnaði sem væntanlega mun lenda að hluta á svæðum félaganna að óbreyttu.

Hvar stend ég þá varðandi sameiningu liðanna???? Satt best að segja hef ég efasemdir um ávinninginn en myndi vilja sjá vel ígrunduð fjárhagsleg- og félagsleg rök fyrir sameiningu áður en ég legði endanlegan dóm á hugmyndina.

 Benedikt Guðmundsson.

Höfundur er áhugamaður um íþróttir.

Nýjast