98. þáttur 19. september 2013

Skammstafanir og styttingarorð

Skammstafanir og styttingarorð eru algeng í tungumálum og fjölgar stöðugt . Kveður svo rammt að þessu að margir málnotendur vita ekki hvað liggur að baki mörgum þessum orðum. Sagði forsætisráðherra landsins á dögunum að hann hefði ekki miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst um þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Átti hann við OECD, Organisation for Economic Cooperation and Development, þ.e.a.s. Efnahags- og framfarastofnunina sem svo hefur verið nefnd á íslensku.

Breytingar í samfélaginu hafa einnig áhrif á skilning fólks á þessum orðum. Ýmsir vita t.a.m. ekki lengur hvað liggur að baki skammstöfuninni KEA, Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyri, enda hafa umsvif þessa gagnmerkra félags samvinnumanna breyst með nýjum viðhorfum á umliðnum árum.

Ein algengasta skammstöfun - eða styttingarorð - um þessar mundir er orðið app, sem er stytting á ensku orðunum application software og mætti e.t.v. þýða „viðbótar hugbúnaður“. Í Evrópumálum er orðið skrifað App, APP, app eða apps. Segja má að orðið app falli að íslensku beygingar- og hljóðkerfi, en það felur ekki í sér merkingarbæra stofna erfðarorða eins og góð nýyrði þurfa að gera. Því er hér lýst eftir betra nýyrði um þetta fyrirbæri í stað enska styttingarorðsins app eða orðanna smáforrit, snjallsímaforrit eða bót sem einnig hefur verið stungið upp á og fela í sér merkingarbæra stofna erfðarorða.

Orðið farsími hefur unnið sér sess í málinu - ásamt orðinu gemsi - um það tækniundur sem á ensku var kallað GSM en flestar þjóður heims nefna mobile phone eða aðeins mobile. GSM er skammstöfun á Global System for Mobile Communications, sem orðrétt mætti e.t.v. þýða á íslensku sem „heimskerfi fyrir farsímasamskipti“. Einnig voru gerð nýyrði s.s. kortafarsími, hvutti, gripsími og geimsími, en þau náðu ekki að festast í málinu.

Orðið farsími er gagnsætt og vel skiljanlegt orð hverju mannsbarni enda felur það í sér merkingarbæra stofna erfðarorða eins og góð nýyrði þurfa að gera. Orðið gemsi er upphaflega stytting á orðinu gemlingur, sem merkir „veturgömul kind“ eða „sauðkind á fyrsta vetri“ og er skylt lýsingarorðinu gamall. Í yfirfærðri merkingu hefur orðið gemsi m.a. verið notað um ungan pilt, sbr. piltungur, eða um vandræðamann, manngarm ellegar einfeldning. Nýyrðið farsími er því betra orð um þetta stórkostlega tæknifyrirbæri en nýmerkingarorðið gemsi.

Hér að ofan hafa verið notaðar skammstafanirnar e.t.v., t.a.m., m.a., s.s. og þ.e.a.s. Þetta eru einna mest notaðar skammstafanir í nútíma íslensku ásamt skammstöfununum a.m.k. og o.s.frv. Vonandi eru þessar skammstafanir öllum skiljanlegar eins og skammstafanirnar sm, m, km, g, kg, hg.

Sumum þykir við hæfi að setja skammstöfunina P.s. undir persónuleg bréf. Þessi skammstöfun er runnin frá latnesku orðunum post scriptum sem merkir orðrétt: „eftir það sem skrifað hefur verið“. Einnig skrifa sumir undir bréf eða yfirlýsingar stafina P.t. sem er skammstöfum á latnesku orðunum pro tempore sem mætti þýða „um stundarsakir“. Skammstafanir og styttingarorð eru því af ýmsum toga og frá ýmsum tíma og verður vikið að fleiri dæmum síðar.

Tryggvi Gíslason,

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast