96. þáttur 5. september 2013

Skýr framburður

Framburður tungumála breytist í tímans rás, eins og eðlilegt er, enda eru tungumál lifandi tjáningartæki. Breytingar á tungumálum eru hins vegar mismiklar. Veldur því margt, t.a.m. mismiklar breytingar á samfélagi, lega lands og samskipti málsamfélagsins við önnur málsamfélög, menntun svo og viðhorf málnotenda til tungumálsins.

 

Danski málvísindamaðurinn Jørn Lund, prófessor við Institut for Uddannelse og Pædagogik í Árósum, taldi 1990 að framburður dönsku - og raunar orðaforði og setningaskipan danskrar tungu - hefði breyst meira en annarra Evrópumála frá því um aldamótin 1900. Enn verða breytingar á danskri tungu og jafnvel talað um kynslóðaskipti hvað það varðar.

Dönum finnst tungumál sitt óskýrt og þvoglukennt, að því er málvísindamaðurinn Tore Kristiansen við Kaupmannahafnarháskóla segir í grein í Politiken 19. maí 2005. Kennir hann skólakerfinu um og segir þá gjá, sem myndast hafi milli talmáls og ritmáls á liðnum árum, valdi því að börn geti ekki lengur greint að orð, sem rituð eru rétt, frá orðum sem eru ranglega rituð samkvæmt gildandi stafsetningu. Þá er talið að fullorðnir Danir eigi erfitt með að skilja mál ungs fólks, t.a.m. ungra leikara. Tore Kristiansen mælir því með aukinni kennslu í stafsetningu, sem þó dugi skammt, heldur þurfi að kenna skólanemendum að tala skýrar, enda tali ungir Danir hraðar og óskýrar en áður. Þetta kemur fram ef bornar eru saman gamlar og nýjar danskar kvikmyndir eða gamlir og nýir sjónvarpsþættir - að ekki sé talað um ef borið er saman tal Danadrottningar og Friðriks krónprins, sonar hennar.

Það sem sagt er um breytingar á framburði dönsku, á að nokkru við um íslensku, enda þótt viðhorf Dana og Íslendinga til málræktar og málverndar séu ólík. Á Íslandi hefur lengi verið lögð áhersla á málrækt og málvernd - ekki síst í skólum, en það sama verður ekki sagt um Dani. En ef við berum saman gamla og nýja sjónvarpsþætti eða fréttir í íslensku sjónvarpi og útvarpi kemur fram munur á framburði og orðalagi. Ungt fólk talar auk þess hraðar en fyrir 50 árum, auk þess sem það fólk álítur bæði „töff“ og „grúví“ að tala hratt og óskýrt. Vafalaust hefur ný samskiptatækni - tölvur og smáskilaboð - ýtt undir óvandað mál, en það er sérstakt rannsóknarefni.

Skýr framburður er hluti af málrækt og málvernd sem mælt er með í þessum þáttum. Það er t.a.m. betra - og réttara - að segja /fótbolti/ en /fóbolti/, /knattspyrna/ en /knasspyrna/, /handbolti/ en segja /hannbolti/. Samkvæmt athugun nota allir íþróttafréttamenn RÚV og Stöðvar 2 síðar greinda framburðinn. Áður hefur verið minnst á orð eins og forsætisráðherra, sem fréttamenn útvarps og sjónvarps og margir ráðherrar bera fram /fosstisráðherra/. Nefna má framburðinn /fjörrtíu/ og /tuttu/ í stað þess að segja /fjörutíu/ og /tuttugu/. Ef til vill gæti það stuðlað að bættum framburði almennings að fá fréttamenn og ráðherra til þess að tala skýrar, þ.e.a.s. vanda framburð sinn.

 

Tryggvi Gíslason

 

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast