94. þáttur 22. ágúst 2013
Málrækt
Málrækt á Íslandi hefur frá upphafi verið í því fólgin að varðveita tunguna með því að halda gerð hennar óbreyttri og raska ekki merkingu orða og orðasambanda, varðveita framburð, orðaröð og setningaskipan, jafnframt því að efla tunguna sem félagslegt tjáningartæki með því að auka orðaforða hennar og fjölbreytni í orðalagi, einkum með nýyrðasmíð. Tilgangurinn hefur verið að styrkja málsamfélagið og stuðla að því að málnotendur nái sem bestu valdi á máli sínu og hugsun. Málrækt hefur einnig verið í því fólgin að efla trú manna á gildi tungunnar.
Markmið varðveislustefnunnar er einnig að varðveita samhengið í íslensku máli og íslenskum bókmenntum þannig að Íslendingar verði áfram læsir á íslenskt mál allra alda. Segja má að markmið málræktarstarfs Íslendinga hafi því verið bæði félagslegt og menningarlegt - og pólitískt.
Gagnrýnisraddir hafa heyrst á hreintungu- og málverndarstefnu Íslendinga, eins og við var að búast. Erlendir málfræðingar hafa t.a.m. undrast þá stefnu Íslendinga að gera nýyrði um hvaðeina og talið eðlilegra að tekin væru upp alþjóðleg orð um öll nýmæli. Hér heima hefur málverndarstefnan verið nefnd málveirufræði íslenskra málfræðinga og vondri málfræði þeirra og öfgum kennt um flest sem aflaga hefur farið í máli og málnotkun. Voru málveirufræðingarnir taldir leggja "siðferðilegt og yfirskilvitlegt mat á ýmis þau afbrigði í máli og málfari sem ekki eru viðurkennd formlega "rétt".
Síðustu áratugi hafa heimspekingar látið til sín taka á sviði málræktar og málheimspeki og vakið athygli á nýjum viðhorfum. Aukin og bætt menntun kennara hefur einnig orðið til þess að efla málræktarstarf. Á stundum hefur þó heyrst einstaka rödd um að leggja bæri niður íslensku og taka upp ensku í staðinn. Heimsmynd og viðhorf fólks sé með öðrum hætti en var í upphafi lýðveldistímans og hinn nýi Íslendingur sagður láta sig litlu varða hvaða mál hann talar né heldur hvar hann sest að og starfar. Sjálfstæðisbarátta fyrri tíðar er mörgum framandi og þjóðrækni og krafa um stjórnarfarslegt fullveldi talin skaða hagsmuni þjóðarinnar og sögð andstæð viðhorfum úti í hinum stóra heimi og jafnvel nefnd þjóðernisstefna.
Málfarsstefna íslenskra stjórnvalda er þó enn sem áður mótuð af sjónarmiðum málverndar og málræktar og í því fólgin að varðveita tunguna og efla málið sem félagslegt tjáningartæki með því að auka orðaforða þess og fjölbreytni í orðavali. Markmiðið er að styrkja málsamfélagið og efla málvitund og mállega samkennd þjóðarinnar og stuðla að því að málnotendur nái sem bestum tökum á máli sínu, m.a. til þess að geta tekið þátt í umræðu um mikilsverð mál samtímans.
Tryggvi Gíslason