85 börn útskrifuðust frá Vísindaskólanum

Frá útskrift í Vísindaskólanum.
Frá útskrift í Vísindaskólanum.

Alls 85 börn á aldrinum 11-14 ára luku námi frá Vísindaskólanum að þessu sinni. Nemendur voru að læra um réttindi barna og um muninn á góðu og illu. Um náttúruvísindi og tónfræðileg hugtök, þeir voru að læra um jörðina og loftslagsbreytingar, tölvur og fréttir, og síðast en ekki síst voru nemendur að læra margt um eigin líkama og heilsu. „Vísindaskólinn hefur fengið mikilvægan stuðning frá samfélaginu, bæði í formi fjárframlaga og aðstoðar á ýmsan annan hátt en hugmyndin er að gera skólann að föstum lið í starfsemi HA í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá HA.

Námsval á háskólastigi verður fjölbreyttara með ári hverju og sá tími er löngu liðinn að valið standi um að verða lögfræðingur, læknir eða prestur. Vísindaskóli unga fólksins sem er nú starfræktur á hverju vori við Háskólann á Akureyri er meðal annars hugsaður til þess að gefa börnum innsýn í þessa fjölbreyttu flóru náms á háskólastigi.

„Ég frétti af einni stelpu í skólanum sem ætlaði að verða hjúkrunarfræðingur eða sjúkraflutningamaður eftir fyrsta daginn,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins. „Eftir næsta dag ætlaði hún að verða lögfræðingur eða fangavörður og eftir þriðja daginn fannst henni eðlisfræði mest spennandi. Þannig viljum við einmitt hafa þetta. Dagskráin er nokkurs konar hlaðborð, þar sem allir fá að smakka á því sama og þannig kynnist nemendur fögum sem þeir héldu kannski fyrirfram að þeir hefðu engan áhuga. Þessi kynning getur haft áhrif seinna þegar nemendur fara að velja sér fyrir alvöru nám og framtíðarstörf.“ 

 

Nýjast