29. október, 2007 - 11:58
Fréttir
Hinn 1. nóvember 1927 lagðist fyrsti berklasjúklingurinn inn á Kristneshæli. Berklarnir voru aðalviðfangsefni Kristneshælis næstu 25 árin. Þá hafði dregið verulega úr berklaveikinni og þörfin fyrir slíka starfsemi minni en þá var farið að nota plássið sem hjúkrunarpláss. Árið 1976 útskrifaðist síðasti berklasjúklingurinn og í september það ár ákvað heilbrigðisráðherra að Kristneshæli yrði hjúkrunar- og endurhæfingarspítali. Sem lið í þessu var nafninu breytt 1. janúar 1984 í Kristnesspítala. Breytingin tók talsverðan tíma en 1991 tók endurhæfingardeild til starfa og 1995 öldrunarlækningadeild. Frá upphafi hafði Kristneshæli/spítali verið hluti af ríkisspítölunum en 1. janúar 1993 tók FSA við rekstrinum. Í dag fer fram öflugt endurhæfingarstarf fyrir 18 ára og eldri á Kristnesspítala. Er það annarsvegar á endurhæfingardeild og hinsvegar á öldrunarlækningadeild. Á endurhæfingardeild fer fram almenn endurhæfing en auk þess sértæk endurhæfing fyrir fólk með langvinna verki og ofþyngdarvandamál. Á síðustu 5 árum hefur fjöldi sjúklinga á endurhæfingardeildinni tvöfaldast en þrátt fyrir það tekst engan veginn að anna eftirspurn og biðlistinn hefur fjórfaldast á síðustu 5 árum og í dag bíða tæplega 300 eftir að komast að. Á öldrunarlækningadeild hefur einnig orðið veruleg aukning á starfsemi einkum göngudeildarþjónustu. Samt hefur biðlisti eftir plássum þar tvöfaldast á síðustu 5 árum. Á árinu 2006 voru rétt um 400 sjúklingar á Kristnesspítala og 100 komu á göngudeild. Hægt hefur gengið að halda áfram endurbótum á aðstöðu sem hófust 1998 þrátt fyrir að margir hafi lagst á þær árar. Miðað við hina auknu þörf verður samt eitthvað að gerast í þeim málum sem allra fyrst.