385 tonn af þurrkuðu byggi í haust

Um 75 tonn af bygginu hafa verið unnin í sérblöndur fyrir bændur sem vilja nýta sitt bygg sjálfir. M…
Um 75 tonn af bygginu hafa verið unnin í sérblöndur fyrir bændur sem vilja nýta sitt bygg sjálfir. Mynd/ Hólmgeir Karlsson

„Uppskeran í ár var afar góð, korn vel þroskað og fylling með því allra besta sem við höfum séð hér í mög ár í ræktun hér á landi,“ segir Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri Bústólpa um bygguppskeru sumarsins.

Bústólpi hefur tekið á móti 385 tonnum af þurrkuðu byggi í haust og hefur þá ýmist keypt það af bændum eða þá fengið til að vinna sérblöndur fyrir þá með þeirra eigin byggi. „Þegar hafa 75 tonn verið unnin í sérblöndur fyrir bændur sem vilja nýta sjálfir sitt bygg,“ segir Hólmgeir.

Hann segir að þetta sé ekki endilega mesta magn sem fyrirtækið hafi tekið á móti í áranna rás, „en hugsanlega besta kornið sem við höfum fengið frá bændum.“

Spara innflutning

Hann segir starfsfólk Bústólpa útbúa sérstakar fóðurblöndur fyrir bændur þar sem reynt er af fremsta megni að nýta þeirra bygg sem best á móti öðrum nauðsynlegum hráefnum. Félagið kaupir töluvert magn af byggi af bændum á svæðinu og segir Hólmgeir að það nýtist sem hráefni í eigin framleiðslu á kjarnfóðri. Fyrir hvert kíló sem fæst frá bændum sparar fyrirtækið sér innflutning á byggi til framleiðslu sinnar.

/MÞÞ


Nýjast