Minjastofnun hefur úthlutað 2,5 milljónum króna til viðgerða á Akureyrarkirkju en setja þarf nýja steiningu á suður- og austurhlið hennar eftir skemmdarverk sem unnin voru á kirkjunni að næturlagi 4. janúar í fyrra. Kostnaðaráætlun við endurbæturnar eru tæplega 13 milljónir. Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju, segir að styrkur Minjastofnunar sé afar mikilvægur.
„En við þurfum mun meira og það er til umræðu að áfangaskipta framkvæmdunum yfir lengri tíma. Þá myndum við reyna að byrja á framkvæmdum austan megin á móti kirkjutröppunum og síðan sníða okkur stakk eftir vexti. Það er óskandi að við getum byrjað á framkvæmdum í vor eða sumar,“ segir Ólafur.
Akureyrarsókn bindur einnig vonir við að framlag komi til verkefnisins frá Jöfnunarsjóði kirkna, en niðurstöðu um það er að vænta innan skamms.
„Við vonumst eftir góðu framlagi þar en við sóttum um fyrir öllu saman,“ segir Ólafur og ítrekar mikilvægi kirkjunnar. „Þetta er ekki bara sóknarkirkja Akureyrar heldur táknmynd kirkjunnar hér á landi.“
Í janúar byrjun í fyrra fór skemmdarvargur um á hjólabretti með úðabrúsa og ritaði ókvæðisorð á fjórar kirkjur í bænum sem lýstu andúð á trúarbrögðum og varð Akureyrarkirkja verst úti. Mest var spreyjað á framhlið og suðurhlið kirkjunnar. Einnig var spreyjað á Kaþólskukirkjuna, Glerárkirkju og Hvítasunnukirkjuna og var sami maður að verki sem játaði verknaðinn.
Fjórum myndavélum með upptökubúnaði var í kjölfarið komið fyrir á Akureyrarkirkju.