16 daga átak Soroptimista gegn ofbeldi

Soffía Gísladóttir.
Soffía Gísladóttir.

Þann 25. nóvember hefja Soroptimistar á Íslandi 16 daga átak gegn ofbeldi, fjórða árið í röð.

Að þessu sinni nefnist átakið ,,Þekktu rauðu ljósin” og beinist að því að vekja athygli á vísbendingum um ýmis konar ofbeldi og hvert má leita ef slíkar vísbendingar eru til staðar.

Soroptmistar víðsvegar um landið leggja sig fram um að vekja athygli á átakinu með ýmsum hætti. Soroptimistar á Húsavík og nágrenni munu m.a. koma fyrir upplýsingum um ,,rauðu ljósin” á áberandi stöðum, standa fyrir ljósagöngu frá Húsavíkurkirkju kl. 17.00 föstudaginn 25. nóvember og koma fyrir appelsínugulum fánum og lýsingum víðsvegar um bæinn en appelsínugult er einkennislitur þessa átaks. Auk þess verða seld appelsínugul blóm og rennur ágóðinn til stofnana sem fara með málefni kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi.

Á hverju ári höfum við líka fengið til liðs við okkur öflugar konur til að skrifa pistil í tilefni átaksins. Pistilhöfundur okkar er að þessu sinni Soffía Gísladóttir og fer pistill hennar hér á eftir.

Við þökkum öllum sem hafa lagt okkur lið við þetta verkefni og hvetjum sem flesta til að taka þátt og gera appelsínugula litnum hátt undir höfði 16. nóv til 10. des og hjálpa okkur þannig að vekja athygli á málefninu.

Soroptimistar hafna ofbeldi!

F.H. Soroptimistaklúbbs Húsavikur og nágrennis

Harpa Þ. Hólmgrímsdóttir

Rauðu ljósin

Á hverju ári, frá 25. nóvember til 10. desember, vekja Soroptimistar athygli á baráttunni gegn ofbeldi og hvetja okkur um leið til að vera á varðbergi gagnvart rauðu ljósunum – viðvörunarljósunum. Það er þakkarvert að Soroptimistar skuli frá ári til árs halda þessu verkefni á lofti því opin umræða er forvörn í sjálfu sér. Ég hef í nær þrjátíu ár notað hamingjuna sem hugtak í starfi mínu með fólki í uppbyggingarferli og mig langar hér í þessum greinarstúfi að gera hana að umfjöllunarefni við baráttuna gegn hvers konar ofbeldi.

Hamingjan snýst um margt, en fyrst og fremst um daglega vellíðan og jafnvægi í lífinu, bæði í eigin skinni og í samskiptum við aðra. Hamingjan snýst um að njóta lífsins í því umhverfi sem við búum, að koma auga á og njóta litlu hlutanna. Það er gott og hollt að hafa hamingjuna að leiðarljósi þegar við erum að glíma við stórar og alvarlegar áskoranir sem ofbeldi svo sannarlega er.

Öll viljum við búa við öryggi bæði inni á heimilinu sem og í samfélagi okkar. Í samfélagi sem einkennist af velvild og góðmennsku sem er laust við ofbeldi af öllum toga, svo sem andlegu, líkamlegu, kynferðislegu, fjárhagslegu og síðast en ekki síst stafrænu ofbeldi. 

Þegar vakin er athygli á rauðu ljósunum og okkur kennt að bera kennsl á þau er jafn mikilvægt að horfa einnig í gagnstæðar áttir sem innibera virðingu fyrir einstaklingum af öllum kynjum og kynþáttum, virðingu fyrir skoðunum þeirra og sjálfstæði, virðingu fyrir líkama þeirra og hugsunum, sérkennum, veikleikum og styrkleikum. Kannski finnst einhverjum það léttvægt að einblína á hamingju þegar verið er að fjalla um ofbeldi og baráttuna gegn því, en hvað er mikilvægara fyrir einstaklinga sem eru að brjótast út úr ofbeldissamskiptum að sjá ljósið við endann á göngunum? Þeir þurfa aðstoð við að endurhugsa veruleikann, greina líðan sína og þá er mikilvægt að hafa góðu gildin, sem einkenna hamingjuna, í huga. 

Við skulum öll sem eitt sameinast í baráttunni fyrir bættum samfélögum með því að hafna hvers konar ofbeldi. Því fleiri sem leggja sitt lóð á vogarskálirnar í þessu mikilvæga verkefni því betri verður árangurinn.

Soffía Gísladóttir,

Sveitarstjórnarfulltrúi Norðurþingi og sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast