15 mánuðir fyrir stórfelldan fjárdrátt
Dómur féll í gær í Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli konu sem gegndi áður starfi fjármálastjóra byggingarfélagsins Hyrnu á Akureyri. Konan sem ákærð var fyrir að hafa dregið sér fé frá fyrirtækinu á fimmtán ára tímabili, fyrst árið 2000, en mest síðustu þrjú ár; var dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir stórfelldan fjárdrátt.
Konan dró sér alls tæplega 51 milljón króna á tímabilinu. Hún millifærði féð bæði beint inn á eigin bankareikninga og á reikning fyrirtækis í eigu sonar hennar, þar sem hún var stjórnarformaður og sá um fjármál.
Konunni var umsvifalaust sagt upp störfum hjá Hyrnu þegar upp komst um fjárdráttinn, það ku hafa verið í júní á síðasta ári. /epe