126. þáttur 16. apríl 2014

Dymbilvika og páskar

Vikan sem nú er að líða hefur verið nefnd dymbilvika, kyrravika eða efsta vika og er síðasta vika lönguföstu eða sjö vikna föstu sem hefst með öskudegi og lýkur með laugardegi fyrir páska.  Fyrri hluti orðsins dymbilvika, dymbill, er skylt lýsingarorðinu dumbur:  „hljóður” eða „mállaus”.  Orðið dymbill var haft um trékólf sem komið var fyrir í kirkjuklukkum í stað járnkólfa til að milda klukknahljóðið og gefa til kynna sorg og hljóða íhugun á fylgja föstunni - ekki síst vikunni fyrir páska.

Á morgun er skírdagur.  Heiti dagsins vísar til þess að Kristur þvoði fætur lærisveina sinna við síðustu kvöldmáltíðina, eins og sagt er frá í Jóhannesarguðspjalli.  Við það urðu lærisveinarnir hreinir – allir nema einn, eins og segir í guðspjallinu.  Ekki verður reynt hér að gera grein fyrir dýpri merkingu þessarar athafnar, en merkingin að baki orðinu skír er „hreinn”, „flekklaus”.  Má því segja að skírdagur merki „hreinsunardagur”.  Gamalt heiti skírdags er skíriþórsdagur.  Hefur það orð varðveist í Norðurlandamálum, því að á dönsku heitir skírdagur skærtorsdag, skjærtorsdag á norsku og í sænsku skärtorsdag, en til forna hét fimmtudagur Þórsdagur, kenndur við þrumuguðinn Þór.

Föstudagurinn langi er mesti sorgardagur kristinnar kirkju.  Heitið lýsir löngum píningardegi Krists sem lauk með dauða hans á krossinum.  Framan af öldum var dagurinn nefndur langifrjádagur, en föstudagur var til forna nefndur frjádagur og dró nafn sitt nafni ástar- og frjósemisgyðjunnar Freyju.  Nafn Freyju er rótskylt gotneska nafninu frauja sem merkir „herra” eða „drottinn”.  Dagurinn heitir enn fredag á dönsku, norsku og sænsku, Friday á ensku og Freitag á þýsku.  Á ensku heitir föstudagurinn langi Good Friday og á nafnið rætur að rekja til latneska heitisins bona sexta feria sem merkir „góði sjötti dagur”.  Átti nafngiftin að gefa til kynna, að dauði Krists hefði verið góður fyrir mannkynið en með dauða sínum bar frelsarinn burtu syndir heimsins.

Orðið páskar er tökuorð komið úr latínu um lágþýsku í íslensku.  Upphaf orðsins er rakið til hebreska orðsins pesah eða pesach sem mun merkja „að ganga yfir” eða „fara fram hjá”, en samkvæmt söguhefð Gyðinga er upphaf páskanna rakið til þess þegar Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni í Egyptalandi, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands, og er það löng saga sem ekki er unnt að rekja hér. Páskarnir eru mesta hátíð kristinnar kirkju.  Þá fögnum við upprisu frelsarans.  Páskar munu vera elsta hátíð kristninnar, enda nefndu kirkjufeðurnir páska á latínu Festum festorum, „hátíð hátíðanna”.

Í ljóði Hannesar Péturssonar Páskaliljur segir:

 

Þið hringið inn upprisu jarðar, kólflausu klukkur

klukkur af gullnu silki, lifandi silki!

Of skærar augum manns, skammdegið var svo dimmt.

Þið skínið í garðinum, sólir fæddar af mold.

Blóm sem skínið, klukkur sem kólflausar hringið!

Klukkur sem syngið.

--

Gleðilega páska,

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

 

Nýjast