122. þáttur 20. mars 2014

Tökuorð

Engin orðabók yfir tökuorð í íslensku er til, eins og er í nágrannamálum okkar.  Vonandi sér slík orðabók dagsins ljós innan fárra ára.  Í meistaraprófsfyrirlestri við Háskóla Íslands 1968 fjallaði sá sem þetta ritar um tökuorð í íslensku á miðöldum.  Nefndist fyrirlesturinn „Áhrif kristninnar á íslenskan orðaforða að fornu“, en á miðöldum bárust mörg tökuorð í íslensku, einkum fyrir áhrif frá kristni.

Erlend máláhrif - og þá m.a. tökuorð - berast einkum á tvo vegu: í fyrsta lagi beint í talmál vegna náinna samskipta einstaklinga frá ólíkum málsamfélögum - og í öðru lagi vegna þýðinga á erlendum ritum.  Dæmi um hið fyrra eru samskipi Íslendinga við þýsk eða engilsaxnesk málsamfélög á miðöldum, þegar menn fóru til náms í klausturskólum, einkum á meginlandinu. Einnig má nefna samskipti Íslendinga við breskt og bandarískt hernámslið á stríðaárunum þegar orð eins og gæi, sjoppa og jeppi bárust beint í talmálið vegna samskiptanna.

Dæmi um nýyrði sem koma inn í málið með þýðingum eru t.a.m. orð sem komin eru úr fornensku á miðöldum, s.s. bjalla (fe.  bella), guðspjall (fe. godspell), hringja (fe.  hringjan), kirkja (fe. cirice), sál (fe. sãwol), sálmur (fe. salm)  og sunnudagur (fe. sunnandaeg).  Mörg orð í íslensku kirkjumáli eru einnig komin úr fornsaxnesku eða miðlágþýsku, því að samskipti voru mikil við Þýskaland á tímum kristniboðs á Norðurlöndum.  Má nefna orðin altari, djöfull, kór, krans, paradís, prestur, synd, trú og vers, þótt upphaflega séu sum þessara orða komin úr latínu ellegar jafnvel enn lengra að.  Mörg orð í íslensku kirkjumáli á miðöldum eru svo að sjálfsögðu komin beint úr latínu, s.s. bréf (lat. breve scriptum: „stutt skrif“), klausa (lat. clausula), persóna (lat. persona) og punktur (lat. punktum).

Orðaforða tungumála er skipti í tvennt eftir uppruna orðanna.  Annars vegar eru erfðarorð, sem svo eru kölluð, þ.e.a.s. orð sem hafa verið til í tungumálinu frá upphafi - eða frá elstu varðveittu heimildum um málið.  Hins vegar eru nýyrði, sem - eins og nafnið bendir til - eru ný orð í máli og geta verið af ýmsu tagi.  

Einn flokkur nýyrða eru tökuorð: orð sem tekin eru að láni úr öðru máli, eins og gagnsætt orðið ber með sér.  Undirflokkar tökuorða eru ýmsir, s.s. tökuþýðingar, tökugervingar og lánsorð eða bastarðar, eins og dr. Halldór Halldórsson, fyrrum kennari við Menntaskólann á Akureyri og síðar  prófessor við Háskóla Íslands, kallaði slík orð.  Lánsorð eða bastarðar eru orð sem tekin eru óbreytt úr öðru máli og falla ekki að hljóðkerfi og/eða beygingarkerfi nýja málsins. Má nefna orðin concept, basically, tvö orð sem mjög eru í tísku, svo og bastarðurinn challenge sem mörgum finnst fínt að nota.

Annar flokkur nýyrða eru tökuþýðingar sem eru bein þýðing á erlendum orðum.  Sem dæmi um tökuþýðingar má nefna víðvarp, tökuþýðing á enska orðinu broadcast, sem festi ekki rætur heldur varð orðið útvarp ofan á; forsetning þýðing á latneska orðinu praepositio og guðspeki er þýðing á latneska orðinu theologia.

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast