Heimskt er heimaalið barn
Mörg orð eru unnt að nota um líkamlegt atgervi og andlega hæfileika fólks, gáfur og gjörvileika, eins og sagt er. Líkamlegt atgervi og andlegir hæfileikar koma fram í hegðun og framkomu ellegar árangri í starfi af ýmsu tagi - ellegar í námi. Hér væri freistandi að ræða um mismunandi greindarsvið fólks, um fjölgreindakenningu bandaríska þróunarsálfræðingsins Howards Gardners sem skiptir gáfum fólks í átta greindarsvið: rýmisgreind, málgreind, rökgreind, hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind. En þá umræðu verður að taka upp á öðrum vettvangi.
Umræða um gáfur, líkamlegt atgervi og andlega hæfileika virðist bundin aðstæðum, s.s. starfsgreinum eða stéttum, menntun og skólagöngu og jafnvel byggðarlögum eða landsvæðum. Rannsóknir á þessu félagsmálvísindalega fyrirbæri liggja þó ekki fyrir. Það bíður ungra málvísindamanna.
Víða í siðfræðikenningum og samfélögum hefur verið lögð áhersla á eiginleika s.s. hógværð og sannsögli. Í kristinni siðfræði, sem kemur m.a. fram í Fjallræðunni, brýnir Kristur fyrir áheyrendum sínum hógværð, lítillæti og tillitssemi: Allt sem þér því viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Kvæðabálkurinn Hávamál, sem er safn heimspekilegra og siðfræðilegra hugmynda frá miðöldum en á sér fyrirmyndir frá því í fornöld, leggur áherslu á að fólk hrósi sér ekki af vitsmunum sínum heldur sé gætið að geði: segi ekki hug sinn allan eða allt sem því dettur í hug:
Að hyggjandi sinni
skal maður ekki hrósa sér
heldur vera gætinn að geði.
Víða í Íslendingasögum er getið um vitra menn, karla og konur. Flestir þekkja ummæli Brennu Njáls sögu um Njál á Bergþórshvoli: Hann var lögmaður svo mikill að engi var hans jafningi, vitur og forspár, heilráður og góðgjarn og varð allt að ráði það er hann réð mönnum, hógvær og drenglyndur, langsýnn og langminnugur. Hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom.
Í Bókinni um veginn eftir kínverska heimspekinginn Lao-tze, sem sagður er fæddur sex öldum fyrir Krists burð, stendur m.a.: Sá sem þekkir aðra er hygginn, sá sem þekkir sjálfan sig er vitur. Sá sem sigrar aðra er sterkur, sá sem sigrar sjálfan sig er voldugur. Sá sem þekkir nægjusemi er ríkur. Þessi orð eiga ekki síður við samtíma okkar en aðstæður í Kína fyrir þrjú þúsund árum.
En ætlunin var að ræða orðtakið Heimskt er heimaalið barn. Orðið heimskur merkir hér: sá sem hefur alið aldur sinn heima - eða á sama stað. Upphaflega er orðið heimskur því notað um þá sem þekkja fátt og átta sig ekki á viðhorfi og siðum annarra. Nú er orðið notað um þann sem skortir vit.
Fróðlegt væri að velta fyrir sér fleiri orðum um atgervi og hæfileika fólks, annars vegar jákvæðum orðum eins og: vitur, forspár, heilráður, hógvær, drenglyndur, góðgjarn, gáfaður, greindur, greinagóður, hygginn, langsýnn, langminnugur, ráðagóður, skilningsgóður, skynugur, skýr og vís - og hins vegar neikvæðum orðum eins og: heimskur, einfaldur, fákænn, fávís, grunnfærinn, ókænn, lyginn, skammsýnn, slóttugur, svikull og vitgrannur.
Tryggvi Gíslason