1. maí: Fjölmenni á hátíðarhöldum á Húsavík

Það var góð stemmning á 1. maí hátíðarhöldunum á Húsavík. Mynd/ Heiddi Gutta.
Það var góð stemmning á 1. maí hátíðarhöldunum á Húsavík. Mynd/ Heiddi Gutta.

Þau voru ekki af verri endanum hátíðarhöldin sem Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir í íþróttahöllinni á Húsavík í dag 1. maí á baráttudegi verkafólks. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar opnaði hátíðina með ræðu þar sem hann minntist þess þegar sjónvarpið kom til Húsavíkur. Hann kom einnig inn á fólksfækkun á svæðinu og fækkun starfa en líka jákvæða uppbyggingu í kringum framkvæmdir PCC á Bakka. Aðalsteinn komst heldur ekki hjá því að minnast á þær hræringar sem átt hafa sér stað á Íslandi undanfarnar vikur, „forseti vor Ólafur Ragnar er hættur við að hætta og ríkistjórn Sigmundar Davíðs er farin frá eftir að komst upp um leynireikninga fjölskyldunnar á suðrænum slóðum. Kúti

Stjórnendur lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fjárfestar hafa einnig verið teknir í bólinu fyrir vafasama gjörninga í gegnum erlend aflandsfélög og eyjar.

Það er ekki annað hægt en að koma aðeins inn á þessi mál sem endurspeglast í spillingu og misskiptingu í þjóðfélaginu sem líkt og illgresi virðist vera erfitt að uppræta, því miður,“ sagði Aðalsteinn í ræðu sinni og spurði: „Hvað fær fólk í ábyrgðarstöðum til að blindast af græðgi og siðblindu hvað þá að ljúga að þjóðinni?“

En það var ekki bara alvara, fram komu landsþekktir skemmtikraftar s.s. Friðrik Ómar, Jógvan, Stefán Jakobsson, Andri Ívarsson, Gísli Einarsson og Karlakórinn Hreimur. Einnig tók til máls Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Mikið fjölmenni var í höllinni en dagskráin hófst kl. 14:00. Boðið var upp á kaffi og dýrindis súkkulaðiköku úr Heimabakaríi.

Krakkar með buff

Karlakórinn Hreimur

Friðrik Ómar og Jógvan

 

Nýjast