Viska aldanna

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Huld Hafliðadóttir skrifar

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við okkar tíma er að nútímarannsóknir eru loksins styðja við og undirstrika þá visku sem vitringar aldanna hafa áður haldið fram og lifað eftir. Jógar hafa t.a.m. stundað hugleiðslu og núvitund í aldanna rás til aukinna lífsgæða og lengingu lífaldurs, en það er ekki fyrr en nú sem vestrænar rannsóknir komast að sömu niðurstöðu. Að ganga um berfættur hefur áhrif á taugakerfi okkar og blóðrás og sú staðreynd að búa í nágrenni við opin náttúrusvæði eykur lífsgæði. Allt samkvæmt rannsóknum.

Niðurstöður rannsókna sýna líka að þegar við stundum áhugamál eða gerum eitthvað sem við höfum gaman af, þá höfum við áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu okkar. Þá erum við líklegri til að búa yfir lægra streitustigi, lægri blóðþrýstingi og meiri almennri vellíðan. Það skiptir ekki öllu hvort við veljum stórtæka eða léttvæga afþreyingu. Allt virðist þetta snúast um að gera það sem við elskum að gera. Það sem við höfum einlægan áhuga á. En hvað þýðir það raunverulega?

Jú, við höfum flest heyrt hvað gerist þegar við verðum ástfangin; dópamínframleiðsla eykst og framleiðsla gleðihormóna almennt; serótónín og endorfín sem eru meðal efna sem aðstoða líkamann okkar við að halda okkur gleðimegin í lífinu. Það sem gerist svo í kjölfarið er að streita minnkar, við hlæjum meira, njótum betur. Svífum um á bleiku skýi, ef svo má segja.

Eru þessar rannsóknir þá að segja okkur að við þurfum að svífa um á bleiku skýi alla daga til að búa yfir góðri heilsu? Líklega væri það ógerningur í nútímasamfélagi.

En, það er eitt sem við getum gert sem hefur bein áhrif á heilsuna og það er að velja okkur viðhorf. Viðhorf gagnvart okkur sjálfum, því sem við erum og gerum og umhverfi okkar. Og þegar við gerum okkur grein fyrir að við stýrum okkar eigin viðhorfi er stærsti sigurinn unninn.   


Athugasemdir

Nýjast