Villuljós Hildu Jönu

Pétur Þór Jónasson.
Pétur Þór Jónasson.

Þann 5. mars sl. birtist í Vikudegi svar Hildu Jönu Gísladóttur við opnu bréfi Einars Brynjófssonar. Fyrirspurn Einars var um ástæður dómsáttar sem gerð var milli Eyþings og fyrrum framkvæmdastjóra Eyþings. Mér er málið skylt því ég er þessi fyrrum framkvæmdastjóri. Hilda Jana svarar í raun engu um ástæður dómsáttarinnar en dregur þess í stað upp villandi mynd í stuttu svari sínu. Þar tel ég að mjög halli á mig. Hugsanlega eru ástæður fyrir því en það getur ekki annað en kallað á viðbrögð af minni hálfu. Persónuleg æra og starfsheiður er eitt af því sem eðlilegt er að verja sem kostur er.

Þann 31. janúar 2019 barst mér bréf undirritað af Hildu Jönu Gísladóttur formanni Eyþings. Með bréfinu var mér sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri Eyþings og tilgreindar ýmsar ástæður fyrir uppsögninni. Með hliðsjón af málatilbúnaði og hvernig staðið var að uppsögninni töldum ég og lögmaður minn, Lára V. Júlíusdóttir, að nauðsynlegt væri að láta reyna á lögmæti uppsagnar fyrir dómi. Það var mat okkar að einnig hefði ítrekað verið brotið á mér í aðdraganda uppsagnar.

Í svari Hildu Jönu kemur fram að stjórn hafi ekki heimild til að tjá sig um málið þar sem um er að ræða starfsmannamál. Engu að síður þá greinir hún frá starfslokaviðræðum sem að hennar sögn hófust í ágúst 2018 í tíð fyrri stjórnar.  Jafnframt að vilji beggja stjórna hafi staðið til að semja um eðlileg starfslok. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo að samningur um „eðlileg“ starfslok hafi strandað á mér. Það er skrumskæling á sannleikanum. Hilda Jana tók við formennsku þegar ný stjórn var kjörin 22. september 2018. Þá tók við atburðarás sem byggði á allt öðru en viðræðum. Á mig voru bornar alvarlegar og rangar ásakanir í þeim tilgangi að hrekja mig úr starfi. Hvaða hlut fyrri formaður átti í þeim málatilbúnaði læt ég liggja milli hluta í bili. Þreifingar um samkomulag hófust skömmu fyrir jól 2018 fyrir tilstilli utan að komandi aðila. Samkomulag náðist ekki vegna kröfu minnar um afsökunarbeiðni á röngum sakargiftum. Það strandaði ekki á starfslokagreiðslu. Starfslok urðu hins vegar fjarri því að vera „eðlileg“, sérstaklega í ljósi þess að það er opinber stofnun (samtök sveitarfélaga) sem á í hlut.

Þá greinir Hilda Jana frá að stjórn hafi ekki séð annan kost en að segja upp ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra vegna trúnaðarbrests. Það er oft hentugt, þegar rök þrýtur, að kasta fram orðinu ,,trúnaðarbrestur“ sem er mjög gildishlaðið hugtak. Úr því má lesa, fyrir þann sem ekki þekkir til mála, að ég hafi ekki unnið í samræmi við stefnu og ákvarðanir stjórnar, jafnvel farið illa með fé. Við þetta kannast ég ekki og hef aldrei fengið tilmæli, leiðbeiningu eða áminningu þar að lútandi. Það gefur hins vegar auga leið að ekki er traust milli aðila þegar ágreiningur er með þeim hætti að hann endar fyrir dómstólum. Horfi þá hver á sinn hlut.

Í orðinu dómsátt felst að gerð var sátt fyrir dómi. Aðalmeðferð í máli sem ég höfðaði gegn Eyþingi var 27. janúar sl. Í kjölfar vitnisburðar vitna var það mat dómara að tilefni væri til að lögmenn málsaðila ræddu mögulega sátt í málinu.  Niðurstaðan varð sú að gerð var dómsátt, sem fól í sér greiðslu bóta til mín að upphæð 14,8 milljónir kr. og málinu þar með lokið fyrir dómi. Á því skal hnykkt að um er að ræða bætur sem fela í sér skaðabætur, miskabætur og málskostnað. Ekki er um að ræða greiðslu fyrir starfslok, biðlaun, orlof eða aðrar starfstengdar greiðslur. Greiðslan til mín skv. dómssáttinni er tilkomin vegna ámælisverðra starfshátta forystumanna Eyþings bæði við uppsögn undirritaðs og aðdraganda hennar. Niðurstaða dómssáttarinnar leiðir því ótvírætt og óumdeilanlega í ljós hvor aðili málsins hafði iðkað hin ámælisverðu vinnubrögð. Því skal að lokum haldið til haga að greiðsla skv. dómsáttinni er einungis hluti kostnaðar Eyþings við málið sem nemur í heild sinni á fjórða tug milljóna. Fyrir því og fleiru gerði ég grein í bréfi dags. 9. mars sl. til sveitarstjórna á starfssvæðinu þannig að þær gætu gegnt eftirlitsskyldu sinni gagnvart samtökum þeim sem þau hafa stofnað og bera því ábyrgð á. Á næstu dögum mun koma í ljós hver viðbrögð þeirra eru.

-Pétur Þór Jónasson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum


Athugasemdir

Nýjast