Vatnið tekur 5 sekúndur að kólna

Ásgeir Ólafsson Lie og Hildur Inga Magnadóttir ásamt börnum sínum.
Ásgeir Ólafsson Lie og Hildur Inga Magnadóttir ásamt börnum sínum.

Þessi labbar alltaf með hundinn milli klukkan átta og hálf níu framhjá húsinu. Klukkan korter yfir átta kúkar hundurinn þarna á sama stað. Skaflinn fyrir utan eldhússgluggann minnkar um tvo sentímetra á dag ef það eru ein eða tvær gráður í plús.  Ef það er heitara þá lækkar skaflinn um einn sentímeter miðað við aukagráðu í plús. Ef ég brýt töfluna í tvennt sem fer í uppþvottavélina þvæst leirtaujið 20% verr.

Ef öll taflan fer þá þarf ekki að þvo jafn lengi. Við það sparast rafmagnskostnaður. Vatnið tekur fimm sekúndur að kólna alveg á eldhúsinu. En sjö sekúndur á baðinu. Ef enginn hefur farið í sturtu í blokkinni á undan okkur tekur það sturtuna 2 mínútur og 50 skúndur að ná hita. Það er víst eðlilegt með fjölbýlishús. Ég googlaði því.  

Handklæði þorna á snúrunum á sex klukkutímum, bolir á átta.  Þó það sé þynnri bómull í bolunum. Af hverju er það?  Það þarf að ryksuga á hverjum degi. Það fer þykk ló upp að vegg ef það líða meira en tveir dagar.

Það tekur því ekki að ganga frá ryksugunni. Hún fær að vera með frammi. Fær sitt pláss. Það tekur símann að hlaða sig að fullu með hraðri hleðslusnúru sextíuogsjö mínútur. En með venjulegri hleðslusnúru rétt undir þremur klukkustundum. Svipaður rafmagnskostnaður samkvæmt google en mikill tímasparnaður.  Vatnið nær suðu í þessum potti á þremur mínútum. En ekki þessum. Þó pottarnir séu jafn stórir í lítrum. Ætli leiðnin í pottunum sé mismunandi?  Ég googla því.

Er ég orðin eitthvað tæpur eða er ég orðinn svona ofboðslega skipulagður? Við fjölskyldan höfum verið í sjálfskipaðri einangrun í sjö vikur í dag.  Vegna langveikrar dóttur okkar sem er með lungnasjúkdóm og er háð öndunarvél að hluta dags.  Stundum þarf hún súrefni.  Við tókum þessa ákvörðun þennan afdrífaríka dag þann tuttugasta og áttunda febrúar sl þegar fyrsta smitið greindist á Íslandi.  Við erum og verðum í þessari stöðu þar til það er enginn möguleiki að hún veikist. Þ.e. ef bólusetning finnst eða veiran deyr.

Við stefnum á ágúst eða september. Jafnvel út árið. Við getum ekkert spáð til um það. Enginn getur spáð til um það. Við tökum einn dag í einu. Við tökum þessari stöðu alvarlega. Sumir dagar eru erfiðir en fleiri eru betri. Konan skrifar mastersverkefni á meðan ég sendi handrit hingað og þangað. Lífið verður að halda áfram.  

Eftir allan þennan tíma. Hver ætli staðan á okkur sé þegar þessu slotar?  Þá meina ég hjá okkur öllum. Verðum við orðin enn skipulaggðari?  Verðum við búin að kljúfa eitthvað annað en atómið?  Verðum við búin að leysa öll stærstu vandamál heimsins? Af því við höfum til þess tíma?

Tími er alveg magnað „tæki“ þegar maður kann að nota það. Ég hef aldrei séð jafn marga í göngutúrum. Ég hef aldrei séð jafn marga pósta heimaæfingum. Ketilbjöllur og hlaupabretti eru uppseld. Erum við mögulega að sigla inn í það að verða líkamlega sjálfstæð? Árið 2020.

Ég held að við verðum orðin svo sjálfstæð að við þurfum ekki að mæta í ræktina. Við njótum þess að æfa heima, úti eða sækja göngutúra með fjölskyldunni.  Sem er magnað. Við borðum allt í einu rétt af því að öll erum við að passa okkur að þyngjast ekki í sóttkvínni. Sem er magnað.

Við förum öðruvísi með vín. Drekkum ekki fyrir framan börnin sem eru heima á daginn. Við núllstillum okkur á allan mögulegan máta. Sem er alveg frábært. Hvað gerist í samfélagi sem elur af sér verur sem breytast svona skyndilega og svona drastískt?

Hvað gerist þegar allt opnast aftur? Vinnum við styttri vinnudaga. Tökum við símafundi? Fækkum við mögulega ónauðsynlegum fundum?  Fara ráðamenn heimsins að átta sig að nota Skype eða Zoom frekar en að fljúga á milli landa til að hittast á stuttum fundum? Notum við emaila meira eða öðruvísi?  Sækjum við um launahækkanir í formi þess að fá sömu laun en frí á föstudögum?

Eyðum við eftir þetta öllum mögulegum aukatíma með fjölskyldu okkar sem gefst? Hættum að taka að okkur óþarfa aukavinnu? Þjöppum við okkur þéttar saman? Ég held það. Þegar okkur er stillt svona harkalega upp við vegg þar sem sjálfsbjörgin þarf að taka við þá lærum við.  Litlu hlutirnir sem við fáum aftur verða svo dýrmætir og þeir fara að telja í hjartanu okkar meðan við losum okkur við allt það sem þarf ekki.

Öll faðmlögin, allir knúsarnir, allir kossarnir, allir vina og fjölskylduhittingarnir. Allir matarklúbbarnir og liturinn á himninum og lyktin af grasinu. Öll skynvit sem setja þetta í forgang, sem hafa verið grafin og legið í dvala vakna.

Það er víst að eitthvað muni breytast. Af öllu slæmu kemur eitthvað gott.

-Ásgeir Ólafsson Lie

 


Athugasemdir

Nýjast