Um hreyfingu og jákvætt hugarfar

Arnar Grant.
Arnar Grant.

Arnar Grant heldur um áskorendapennann að þessu sinni. Gefum Arnari orðið.

Flestir renna blint í sjóinn með það hvernig þeir ætla að halda heilsu lengur en ella, en sannleikurinn er sá að við þurfum að viðhalda líkamanum, rétt eins og vél. Það er nauðsynlegt að hafa augun opin þegar viðvörunarljósin byrja að blikka sem gerist oft án þess að við viljum taka eftir þeim. Dæmi um viðvörunarljós er stirðleiki, orkuleysi, þunglyndi og ótti við að reyna nýja hluti – og já, framstæður kviður.

Andlega hliðin gefur líka oft merki um líkama sem er að telja út. Það er því ekki skynsamlegt að láta kylfu ráða kasti með það hvernig taka eigi á málum, heldur horfa fram á við og finna lausnir. Til þess þarf maður að setja sig í réttar stellingar og meta líkamlegt og andlegt heilsufar. 

Við erum öll veiðimenn sama hvaða starf við stundum. Kyrrstöðumaður er maður sem eltir bráðina með penna eða tölvu inni á skrifstofu. Slík er sérhæfing okkar mannfólksins orðin. En þörfin til að elta bráðina í alvöru er samt alltaf jafn rík. Líkamsræktarstöðvar eru til þess fallnar að andinn finni það á holdinu að árangri sé náð; að björninn sé unninn þ.e. að veiðimaðurinn hafi í raun hlaupið uppi bráðina en ekki aðeins veitt ímyndað dýr með pennaoddi. Líkaminn er nefnilega enn í sambandi við manninn sem var uppi snemma á kvartertímabilinu. Líkama sérhvers manns þarf að líða eins og hann hafi fangað bráðina, jafnvel þó við þénum launin okkar með því að sitja við skrifborð. 

Þegar kemur að því að hreyfa sig er alltaf betur farið af stað en heima setið. Jafnvel það eitt að leggja bílnum langt frá áfangastað getur verið góð byrjun. Eins það að nýta hvert tækifæri sem gefst til að ganga eða beygja sig aukalega. Þegar á botninn er hvolft kemur hreyfingin þér lengra en bara á áfangastað, hún gerir þig líka reiðubúinn/reiðubúna til að taka næsta skref – ásamt því auðvitað að gera þig ánægðari í eigin skinni. 

Rithöfundurinn og júdómeistarinn Thor Vilhjálmsson var ágætt dæmi um mann sem hafði anda og líkama í stöðugri vinnslu. Á þeim aldri sem flestir eru orðnir lúnir og hrumir gekk Thor Jakobsveginn, 800 kílómetra langan veg. Thor var þá kominn yfir áttrætt. Stílgáfa hans stóð jafnfætis holdinu. Hann hefði átt betur í viðureign við hvaða jafnaldra sem var – hvort sem það hefði verið á ritvellinum eða í íslenskri glímu. 

Ekkert er eins auðvelt og að gefast upp fyrir líkamlegri fitu. Það sem er þó erfiðast af öllu er að burðast með hana og gráta það að gera ekkert í því að losa sig við hana. Sumir eyða allri ævinni í að harma ástand sitt, en þyrftu líklega ekki nema helminginn af þeirri orku sem í það fer, til að koma sér í helmingi betra form. Spurningin er hvorn kostinn þú telur skynsamlegri: Tuða eða puða?

Í Finnboga sögu ramma stendur: „Venst hann nú við íþróttir allar þær er karlmann má prýða.“ Sumir hafa engan áhuga á slíkum orðum og reyna ekki að skilja þau. Ég er þó sannfærður um að hver og einn, og auðvitað líka konur, ættu að finna sér íþróttir að venja sig við og sem prýða kunni anda og skrokk. Slíku fólki farnast vel.

Hugarfarsbreyting er oftast fyrsta skrefið sem þarf að taka. Það að horfa á glasið hálf fullt í stað þess að segja það hálf tómt er lykillinn að góðri heilsu. Með jákvæðni að leiðarljósi getur maður gert hvað sem er. Það er aldrei of seint að byrja.

Aldrei, nema auðvitað ef maður er orðinn 115 ára og hefur ekki verið með meðvitund í þrjú ár.

Ég skora á Gauta Einarsson í að skrifa pistil í næsta blað.

-Arnar Grant.

 


Athugasemdir

Nýjast