Um áramót Njáll Trausti Friðbertsson skrifar

Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson

Vefurinn setti sig i samband við þá flokka sem eiga þingmenn i kjördæminu og bauð oddvitum þeirra að sem skrifa pistil til lesenda  við áramót.

Eins og vera ber og til að gæta alls hlutleysis var dregið um röð flokka í sambandi við birtingu pistla.  Sá fyrsti er skrifaður af Njáli Trausta Friðbertssyni Sjálfstæðisflokki

Hugleiðingar um áramót

Þegar líður að áramótum og hugað er að verkefnum næstu ára er áhugavert að líta um öxl og sjá að við höfum verið að upplifa sérstaka tíma og ýmis áföll hafa dunið yfir sem hafa haft áhrif á efnahag og velferð þjóðarinnar. Þau rúmu sjö ár sem ég hef setið á Alþingi hef ég lengstum setið í fjárlaganefnd og þau verkefni sem þar hefur verið tekist á við marka sterkt þessi ár. Þarna má telja til áföll eins og fall WOW air, Aðventustorminn, heimsfaraldur, stríð í Evrópu og eldvirkni á Reykjanesskaga.

Aðventustormurinn og raforkumál

Um miðjan desember árið 2019 gekk yfir mikið ísingarveður, sem reyndist mikil áraun fyrir raforku- og fjarskiptakerfi okkar. Flutningskerfi raforku, Byggðalinan og svæðisbundnu kerfin, löskuðust víða og meira en við höfðum áður kynnst. 

Við Íslendingar höfum um langt skeið verið værukær um mikilvægi þess að hér sé áfallaþolið öflugt raforkukerfi. Græn raforkuframleiðsla er einn af þeim þáttum sem skapar grunninn að góðum lífsskilyrðum á Íslandi, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og um leið velferð þjóðarinnar.

Það þurfti ,,Aðventustorm“ til að vekja marga af værum blundi, sumir hreinlega vöknuðu ekki og eru því miður ekki ennþá vaknaðir.

Heimsfaraldur

Þremur mánuðum eftir óveðrið braust Covid 19 út.

Með útbreiðslu heimsfaraldursins var mikil óvissa í efnahagsmálum þjóðarinnar og heimsins alls. Hvernig myndi atvinnulífið og helstu atvinnuvegir þjóðarinnar bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem var að dragast upp. Strax var ljóst að það myndi skapast alvarlegt ástand í ferðaþjónustunni og flugrekstrinum.

Lítt skuldsettur ríkissjóður gerði það mögulegt að fara í öflugar mótvægisaðgerðir, standa á bak við heimilin og atvinnulífið. Þær aðgerðir hjálpuðu mikið við að koma okkur hratt og örugglega á rétta braut á ný.

Úkraínustríðið

Úkraínustríðið er stærsta öryggisógn í okkar heimshluta frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Gríðarlegt mannfall og aðrar hörmungar hafa fylgt þessum átökum. Áhrifin hafa verið margvísleg og haft mikil áhrif á efnahagsmálin, þar á meðal á Íslandi. Hér var höggið einna mest í landbúnaðinum.

Staða bænda

Rekstarumhverfi bænda hefur verið einstaklega erfitt og þá sérstaklega í tengslum við Úkraínustríðið og verðhækkanir á ýmsum aðföngum eins og kjarnfóðri, áburði og ýmsum öðrum aðföngum til búrekstrar sem ekki hefur verið mögulegt að velta út í almennt verðlag.

Verulegar hækkanir á fjármagnskostnað hafa skapað mikla erfiðleika hjá bændum eins og svo mörgum öðrum. Kröfur um bættan aðbúnað búfjár vegna opinberra reglugerða hafa leitt til mikilla fjárfestinga. Það hefur verið kallað eftir meiri framleiðni, stækkun búa, með tilheyrandi fjárfestingum sem hafa leitt til hárrar skuldsetningar.

Nú sjást lækkanir á aðföngum og vonandi heldur sú þróun áfram. Hér er mikilvægt að halda til haga að þær aðgerðir sem voru samþykktar í fjáraukalögum í þinginu fyrir jólin eru fyrst og fremst bráðaaðgerðir við alvarlegri stöðu. Stóra málið er hins vegar að skapa framtíðarsýn til lengri tíma og tryggja innlenda matvælaframleiðslu.

Eldvirkni á Reykjanesskaga

Á undanförnum árum höfum við upplifað mikla virkni í eldstöðvarkerfunum á Reykjanesskaganum. Fjögur eldgos á tæpum þremur árum. Alvarlegasti atburðurinn varð þó í Grindavík í nóvember sl. Ekki er útséð með hvernig þetta fer allt saman. Ríkistjórn og Alþingi hefur verið samstíga um að gera allt sem hægt er til að aðstoða Grindvíkinga í þeim miklu hremmingum sem þeir eiga í nú um stundir. Hugur okkar er með þeim nú yfir hátíðirnar.

Akureyrarflugvöllur

Á nýju ári mun framkvæmdum við stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli  og endurbótum á eldri hluta hennar ljúka. Nýtt flughlað var formlega tekið í notkun 1.desember og geta flugvallarins til að sinna hlutverki varaflugvallar stóreflt.  Það er síðan algjört forgangsmál að hið fyrsta verði lokið við nýtt aðflug úr suðri sem tryggir lægri aðflugslágmörk sem gerir það mögulegt að lenda í verri veðuraðstæðum.

Það voru mjög jákvæðar fréttir þegar Easyjet tilkynnti í maí að félagið myndi hefja flug frá London til Akureyrar í lok október og fljúga til loka mars á næsta ári. Flugið hefur gengið vel og nú þegar hefur félagið opnað á sölu farmiða næsta vetur. 

 Lokaorð

Framundan bíða ýmis verkefni sem eru mislangt á veg komin. Þar má nefna uppbygging Kjalvegar, efling Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri og staðsetning þyrlu Landhelgisgæslunnar á Norðurlandi og Reykjavíkurflugvöll.

Stærsta verkefni næsta árs ásamt því að ná kjarasamningum sem stuðla að jafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap og ná niður verðbólgu og vöxtum, er að hraða af öllum mætti uppbyggingu virkjana og flutningskerfi raforku, byggja upp öflugt áfallaþolið raforkukerfi og framleiða meiri raforku.

Orkuskiptin, græn orkuframtíð snýst um að efla lífsskilyrði okkar Íslendinga. Með því að nýta íslenska orkugjafa má spara kaup á erlendri orku með dýrmætum gjaldeyri. Hér er einnig um mikilvægt þjóðaröryggismál að ræða.

Við eigum að nálgast orkuskiptin út frá þeirri hugsun að þau snúist um efnahagslegt sjálfstæði okkar. Það er alveg sama undir þegar við veljum að efla undirstöður innlendrar matvælaframleiðslu. Matur og orka eru hornsteinar í sjálfstæði þjóðar. Því skulum við aldrei gleyma.

Ég óska lesendum Vikublaðsins velfarnaðar á komandi ári.

 Njáll Trausti Friðbertsson,

oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.


Athugasemdir

Nýjast