„Það hlýtur að vera fyrir smurninguna“

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Allt frá sjö ára aldri gekk ykkar einlægur einn og óstuddur sérhvern hvunndag úr Ránargötunni yfir Eiðsvöllinn, sem þá var eitt drullusvað, áfram fram hjá Stjánakofa þar sem nú er Ráðhúsið og í gegnum miðbæinn með alla sína umferð. Síðan upp kirkjutröppurnar og að Barnaskólanum fyrir ofan kirkjuna. Þessi gönguferð tók tuttugu og eina mínútu og lengur ef eitthvað nýtt var að sjá í búðargluggum í miðbænum. Öll börn bæjarins sóttu þennan eina skóla og því var þröngt á þingi og mikið fjör þegar við söfnuðumst saman fyrir neðan tröppurnar við aðalinnganginn.  Svo komu Eiríkur Stefánsson kennari eða nafni hans Sigurðsson út á tröppurnar með stóru skólabjölluna og hringdu henni hvor á sinn hátt. Sá fyrrnefndi hélt fast um skaftið með báðum höndum fyrir framan brjóstkassann og sveiflaði bjöllunni af miklum krafti upp og niður svo hún bókstaflega öskraði á okkur krakkana að fylkja umsvifalaust liði fyrir framan tröppurnar. Eiríkur yfirkennari hélt hins vegar á bjöllunni stóru í annarri hendi og dinglaði henni fram og aftur í miklum sveiflum.  Sjálfur hafði ég áhyggjur af því að hann myndi missa skólabjölluna úr hendi sér og hún svífa út í loftið og skella á okkur sem stóðum þarna í röðum. Úr því gæti orðið alvarlegt slys með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En allt slapp þetta til og við komumst ávallt heil og ósködduð inn í okkar góðu skólastofur!

Þar voru okkar frábæru kennarar og fræddu liðið og þjálfaði í lestri, skrift og reikningi auk þess að kynna okkur ýmislegt um fjölmarga leyndardóma lífsins. Minnist þess gjörla þegar Lilja Sigurðardóttir kennari talaði af mikilli innlifun um allt það undur skaparans sem  mannslíkaminn er. Benti á að þar væri því svo haganlega fyrir komið að allir liðir mannslíkamans væru sjálfsmurðir öfugt við vélar og tæki sem þyrftu göt og ventla hér og þar til að koma smurningu á sinn stað. Í framhaldinu ræddi hún um höfuðið og hálsinn og spurði hvort einhver vissi um tilgang stóra gatsins fyrir neðan hnakkann.  Þá svaraði Haddó (Hallgrímur Arason) að bragði: “Það hlýtur að vera fyrir smurninguna.”  Hló þá allur bekkurinn og Lilja svo dátt að undir tók.

Björgvin Jörgensson tónlistarkennari var merkur maður fyrir margra hluta sakir. Auk þess að vera afbragðs kennari á sínu sviði og söngstjóri í fremstu röð þá þræddi hann einn kennara stíg með okkur nemendum sem aðrir veigruðu sér við að feta. Þessi sérstaða hans fólst í því að fjalla öðru hvoru í söngtímum um kynlíf og hvað biði þegar sá hluti tilverunnar rynni upp í lífi okkar. Þetta gerði hann af mikilli þekkingu og virðingu fyrir þessum viðkvæma þætti mannlífsins; upplýsti okkur um fjölmargt sem fáir fullorðnir orðuðu við börn á þeim tímum. Svaraði aukin heldur spurningum okkar af yfirvegun sem við kunnum vel að meta enda mátti heyra saumnál detta þegar Björgvin ræddi þessi mál. Svo héldum við bara áfram að syngja af hjartans list.

Þannig var þessi góði skóli farsæl blanda fróðleiks, gleði og góðs samfélags. Því er ekki að undra að hann var oft kallaður Barnaskóli Íslands.  

Ingólfur Sverrisson


Athugasemdir

Nýjast