Tækifæri fyrir landið allt

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir

Hrun blasir við í ferðaþjónustunni um land allt. Allflest ferðaþjónustufyrirtæki hafa lokað tímabundið, enda fáir ferðamenn staddir hér en mikilvægt er að tryggja endurreisn greinarinnar þegar faraldrinum slotar og ferðamenn fara að heimsækja landið að nýju.

Þingið samþykkti á dögunum aðgerðapakka frá ríkisstjórninni, sem því miður var ekki unnin í samráði stjórnar og stjórnarandstöðu, en tók þó jákvæðum breytingum í meðförum þingsins. Aðgerðirnar beindust að mestu beint að fyrirtækjum og ber þar hæst að nefna hlutabótaleiðina svokölluðu, ýmsa fresti á sköttum og gjöldum og svokölluð brúarlán til fyrirtækja sem verða fyrir tekjufalli.

Allt eru þetta ágætar aðgerðir, en ljóst er að gera þarf miklu meira. Á  næstu dögum og vikum þurfum við að gæta sérstaklega að því að horft sé til mismunandi aðstæðna á ólíkum svæðum. Á flestum svæðum utan suðvesturhornsins fær ferðaþjónustan inn langstærstan hluta tekna sinna yfir sumarmánuðina, en ef fer sem horfir blasir við verður komandi sumar mjög erfitt, ekki síst fyrirtækjum sem hafa lagt í fjárfestingar í góðri trú. Við því þarf að bregðast sérstaklega.

Það er þó ekki eintómt svartnætti framundan. Á síðustu árum hafa byggst upp fjölmörg sterk ferðaþjónustufyrirtæki um landið vítt og breitt og margir spennandi sprotar sprottið upp. Það er því á miklu að byggja og ef vilji er til má skapa fjölmörg tækifæri á næstu mánuðum til styrkingar og frekari uppbyggingar. Þar þurfum við líka að nýta tækifærið og dreifa ferðamönnum betur um landið þegar erlendir ferðamenn fara að heimsækja Ísland að nýju. Gæta þarf vel að hagsmunum landsins alls í ákvarðanatöku næstu vikna og vera með sértækan stuðning við ólík svæði – þar sem ein lausn virkar ekki fyrir alla í þessum aðstæðum. Jákvæðar ákvarðanir hafa verið tilkynntar nú þegar í tengslum við uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðarflugvelli.

Ný flugstöð virkar þó ekki sem mótvægisaðgerð nema henni fylgi farþegar sem kallar á ákvarðanir um markvissa og öfluga markaðssetningu þessara svæða og fylgja þarf svo þeim ákvörðunum eftir með fjármagni. Opnun nýrra gátta er ekki einkamál þessara landsvæða heldur er það mikilvægt tækifæri fyrir landið allt. Að því þurfum við að vinna.

 -Albertína Friðbjörg Elíasdóttir


Athugasemdir

Nýjast